Dularfullur kattadauði í Hveragerði

Hveragerði.
Hveragerði. mbl.is/Árni Sæberg

Dularfullur kattadauði í Hveragerði á dögunum gæti bent til þess að hugsanlega sé dýraníðingur aftur kominn á kreik í bæjarfélaginu. Að minnsta kosti þrír kettir drápust í ágúst í fyrra eftir að hafa étið fiskiflök sem sprautuð höfðu verið með frostlegi.

Frétt mbl.is: Kattaeitrun í Hveragerði staðfest

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að lögregla hafi nýlega fengið tilkynningu um að köttur hefði drepist í Hveragerði. Tilkynningunni fylgdi að grunsemdir væru uppi um að eitrað hefði verið fyrir kettinum. 

Búið er að kryfja köttinn að sögn Odds en óformleg niðurstaða krufningarinnar bendir til þess að kötturinn hafi étið eða drukkið frostlög eða þess háttar efni. Er málið því mjög sambærilegt því sem upp kom í fyrra að sögn Odds.

„Á sama tíma í fyrra voru að finnast fiskiflök sem hafði verið hleypt frostlegi í,“ segir Oddur. Hann bætir við að lögreglu hafi borist upplýsingar um annan kött sem hafi drepist á svipuðum tíma og sá sem var krufinn og dauðinn hafi einnig þótt undarlegur. „Eigandi þess kattar aðhafðist ekkert frekar í því.“

Enginn grunaður, hvorki þá né nú

Við rannsókn lögreglu á þessum grunsamlegu kattaeitrunum í fyrra bárust nokkrar ábendingar og vísbendingar til lögreglu en þær leiddu ekki til niðurstöðu. Er því enginn grunaður um verknaðinn í þessu máli, hvorki þá né nú, að sögn Odds sem biðlar til almennings um að veita upplýsingar um þennan grunsamlega verknað.

Spurður hvort sami dýraníðingur sé að verki núna og sem eitraði fyrir köttunum í fyrra segir Oddur engar slíkar hugleiðingar vera uppi, en óneitanlega séu mikil líkindi með málunum. „Munurinn er sá að þá vorum við með þessi fiskiflök en erum bara með dauða ketti núna,“ segir hann.

Um það hvort kattaeigendur ættu að halda köttum innandyra segir Oddur að lögregla gefi ekki út slíkar viðvaranir. „Það eru allir dýraeigendur hugsi yfir þessu, en við erum ekki að gefa út svoleiðis viðvaranir,“ segir Oddur.

Hann segir þó möguleika vera á því að kettirnir hafi komist í eiturefni sem hafi verið skilin eftir án þess að gengið hafi verið frá þeim með tryggum hætti. „Það kann að vera skýring en í ljósi sögunnar eru ákveðnar líkur á því að það sé bara verið að fara illa með dýr.“

Fréttatíminn greindi fyrst frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert