Ekki talin ástæða til gæsluvarðhalds

Sérsveitarmaður við störf. Mynd úr safni.
Sérsveitarmaður við störf. Mynd úr safni. mbl.is/Eva Björk

Maðurinn sem króaði sérsveitarmann af fyrr í vikunni, reyndi ítrekað að stinga hann með hnífi og hótaði honum lífláti var handtekinn og yfirheyrður vegna málsins. Var honum sleppt að loknum yfirheyrslum þar sem málið var metið þannig að ekki væri ástæða til þess að óska eftir gæsluvarðhaldi yfir honum.

Þetta segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is. Aðspurður segist hann ekki vilja tjá sig frekar um málið eða hvað réði úrslitum í þeirri ákvörðun að sleppa manninum lausum, að fara ekki fram á gæsluvarðhald. Héraðssaksóknari er með málið til rannsóknar þar sem um er að ræða brot gegn lögreglumanni.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, sagði í samtali við mbl.is í morgun að lögreglumenn væru reiðir yfir því að líf þeirra væri metið á þennan hátt. „Það virðist engu máli skipta þó að það sé verið að ráðast á þá, stinga og hóta lífláti,“ sagði hann meðal annars.

Tveir sér­sveit­ar­menn fóru í út­kall í íbúðar­hús á höfuðborg­ar­svæðinu á þriðju­dags­kvöld. Voru þeir næst­ir hús­inu af þeim lög­reglu­mönn­um sem voru á vakt og sinntu þeir því út­kall­inu.Þeir knúðu dyra og tók maður á móti þeim vopnaður hnífi. Tókst mann­in­um að læsa ann­an sér­sveit­ar­mann­inn úti og reyndi ít­rekað að stinga sér­sveit­ar­mann­inn sem er inni í íbúðinni. Hótaði maður­inn hon­um jafn­framt líf­láti.

Frétt mbl.is: Reyndi ítrekað að stinga sérsveitarmann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert