Meinað að giftast ástinni sinni

Raví og Ragnheiður kynntust við rætur Himalajafjalla þar sem þau …
Raví og Ragnheiður kynntust við rætur Himalajafjalla þar sem þau unnu bæði við fjallamennsku og flúðasiglingar.

Ragnheiður Guðmundsdóttir er ævintýrakona, innanhússhönnuður og fjalla- og flúðaleiðsögumaður en þarf að setja lífið á bið þar sem hún berst við 4. stigs lífhimnukrabbamein. Á sama tíma berst hún við íslenska ríkið sem meinar henni að giftast ástinni sinni, manninum sem hún fann við rætur Himalajafjalla. Það er ekki til uppgjöf í huga hennar og hún þráir það eitt að fá að ná heilsu, giftast og stofna fjölskyldu í framtíðinni.

Við sitjum úti í garði við litla húsið hennar í Hveragerði á einum heitasta degi sumars. Það er bjart yfir öllu og lífið ætti að vera áhyggjulaust hjá ungri og ástfanginni konu en yfir hangir dökkt ský.

Ragnheiður er með svarta derhúfu og dökk sólgleraugu en hún gengst nú undir lyfjagjöf og hefur misst hárið. Dagarnir eru langir og oft erfiðir þar sem hún bíður eftir að líkamanum batni en hún hefur miklar áhyggjur af framtíðinni. Unnusti hennar, Raví Rawat, sem er frá Indlandi, stendur þétt við bakið á henni. En íslenska kerfið hefur reynst þungt í vöfum og allt stefnir í að hann þurfi að yfirgefa landið í lok ágúst þegar atvinnu- og dvalarleyfi hans rennur út, ef málið leysist ekki fyrr.

Fór til Nepals í stað mömmu

Það rennur kannski sígaunablóð um æðar hennar en Ragnheiður hefur haft ríka þörf fyrir að flakka um heiminn og prófa nýja hluti. Hún fór eftir stúdentspróf til Barcelona og lærði innanhússhönnun en bjó víðar annars staðar líka. „Það er búið að vera mikið flakk á mér,“ segir Ragnheiður sem hefur búið í Bretlandi, Svíþjóð og Noregi. Þar næst var Nepal og Indland á dagskrá þar sem hún fór á fjallanámskeið.

Frétt mbl.is: Berst við krabba og kerfið sem mein­ar henni að gift­ast ind­versku ást­inni sinni

Örlögin réðu því að hún endaði í Nepal. „Þetta var þannig að ég var að vinna í Noregi og mamma ætlaði að fara til Nepals og var búin að borga helminginn í planaðri gönguferð. Svo fær hún ekki frí í vinnunni þannig að ég fór í staðinn. Ég hafði kynnst manni frá Indlandi sem ég hafði samband við og hann var þá einmitt heima því mig langaði svo líka til Indlands eftir Nepal. Hann planaði fyrir mig þriggja vikna ferð og byrjaði á að fara með mig upp í fjöllin. Þetta var allt öðruvísi en Nepal. Þar eru alls staðar gistiheimili og alls staðar hægt að kaupa kók og bjór en þarna í Himalajafjöllunum Indlandsmegin er ekki neinn slíkur lúxus, þú þarft sjálfur að bera allt á bakinu, tjald og vistir,“ segir Ragnheiður sem endaði lengst uppi í fjallaþorpi þar sem hún gisti með innfæddum við fábrotin skilyrði áður en hún hélt inn í óbyggðirnar.

Seinna í ferðinni kynntist hún strákum sem áttu flúðasiglinga- og göngufyrirtæki sem buðu henni að koma aftur til Indlands og vinna fyrir þá. Félagi hennar, fjallagarpurinn Satyabrata Dam, hvatti hana til að koma aftur og stunda nám í háfjallamennsku. „Þannig að ég kom aftur ári seinna og var mánuð í Nehru Institute of Mountaineering sem er rekið undir handleiðslu indverska hersins. Þetta var „hardcore“ námskeið í háfjallamennsku þar sem maður lærir klettaklifur, ísklifur og almenna fjallamennsku og fleira. Og eftir það fór ég að vinna fyrir þessa stráka sem ég hafði kynnst árið áður og þá kynnist ég Raví,“ segir Ragnheiður sem ætlaði sér aldrei að falla fyrir honum.

Ragnheiður Guðmundsdóttir.
Ragnheiður Guðmundsdóttir. mbl.is/Ásdís

Ástin var ekki á dagskrá

Ég spyr hvort það hafi verið ást við fyrstu sýn. „Nei, ekki alveg, mér fannst hann sætur og sjarmerandi en við byrjuðum bara sem vinir og svo óx þetta.“

Þig grunaði ekki þegar þú fórst í stað móður þinnar í þessa ferð að þú ættir eftir að eignast indverskan mann? „Nei, mér finnst stundum eins og þetta hafi bara átt að vera. Þetta voru mín örlög að fara þangað og á endanum að kynnast þessum manni. Ég var ekkert að fara að ná mér í Indverja! Ég reyndi að sporna gegn þessu. Og ætlaði ekkert að fara að verða ástfangin af honum. En svo varð ég bara að játa mig sigraða,“ segir hún og brosir.

Hún segir Raví standa við hlið sér eins og klett. „Það er rosa gott að hafa hann, hann er svo mikill gleðigjafi. Hann gefur mér mikla gleði og fær mig til að hlæja og til að gleyma því slæma. Hann er líka svo ljúf og góð manneskja. Mér finnst ég alltaf ótrúlega heppin að hafa kynnst honum.“

Lá á spítala í mánuð

Á Indlandi kynntist Ragnheiður nepölskum manni sem rekur fyrirtækið Viking Rafting sem er fyrir norðan. Sá maður bauð henni vinnu hjá sér og varð þá úr að hún ynni þar yfir sumarið og í Indlandi yfir veturinn. Hún var við störf fyrir norðan í fyrrasumar þegar veikindin fóru að gera vart við sig. „Í lok tímabilsins var ég orðin rosalega veik. Þetta var eiginlega seinasti dagurinn og ég var búin að vera með svo mikla verki og hita en ég tímdi ekki að vera veik síðasta daginn og tók bara íbúfen og fór í vinnuna. Svo var ég alveg að drepast þannig ég fór til læknis. Ég hélt kannski að ég myndi fá einhver sýklalyf og vera send aftur heim, en eftir blóðprufuna var ég send beint til Akureyrar og lögð inn,“ segir Ragnheiður sem óraði þá ekki fyrir framhaldinu. „Ég lá á spítala í mánuð og þau vissu ekkert hvað væri að mér. Ég fór í allar rannsóknir en þeir skildu ekkert hvað væri að. Ég var svo send heim eftir mánuð og átti að safna kröftum og koma svo í aðgerð. Milli jóla og nýárs var fjarlægt æxli úr lífhimnunni og sýni tekið úr því sem var í lifrinni en þeir vissu ekki almennilega hvað þetta var þá,“ útskýrir hún.

Grunaði aldrei krabbamein

Tveimur vikum eftir aðgerðina sat hún alein inni hjá lækninum sem tilkynnti henni að hún væri með illkynja krabbamein. Sjokkið var mikið. Ragnheiði grunaði aldrei að fá þessi tíðindi. „Þegar ég fór til læknisins var ég á þriðja degi í nýrri vinnu og mæti bara og held að þetta sé ekkert slæmt, kem ekki með neinn með mér. Mig grunaði aldrei að þetta væri krabbamein,“ segir Ragnheiður. „Svo tók við heill mánuður að greina það eitthvað frekar og ég var alveg að verða geðveik,“ segir hún en biðin var henni gríðarlega erfið.

„Í ljós kom að þetta var lífhimnukrabbamein sem er mjög óalgengt, að það eigi upptök sín í lífhimnunni. Svo er ég með meinvarp í lifrinni en þeir eru búnir að taka æxlið úr lífhimnunni. Það munaði rosalega að losna við það því ég var með stöðugan astma sem fór ekki fyrr en æxlið fór,“ útskýrir hún.

Barátta við kerfið

Raví kom til Íslands sumarið 2015 til að vera með ástinni sinni og vann þá hjá flúðasiglingafyrirtæki en þau hafa verið par síðan 2013. „Þá fékk hann atvinnuleyfi vegna skorts á vinnuafli í stað þess að fá það vegna sérfræðikunnáttu sem mér finnst það ætti að vera, en vegna íslensks menntasnobbs er það ekki hægt,“ segir hún. Ragnheiður útskýrir að hægt sé að fá tvenns konar atvinnuleyfi; annars vegar á grundvelli skorts á vinnuafli og hins vegar vegna sérfræðikunnáttu í starfi. Þar sem hann er lærður leiðsögumaður ætti hann að falla í seinni flokkinn, að hennar mati.

Eftir sumarið 2015 þurfti Raví að fara aftur heim til Indlands en faðir hans hafði þá greinst með krabbamein og lést í desember. Stuttu síðar fréttir Raví af niðurstöðu læknanna um krabbamein Ragnheiðar. „Þetta fær rosalega á hann,“ segir Ragnheiður og útskýrir að hjá lægri stéttum í Indlandi er krabbamein dauðadómur.

Ragnheiður vildi að sjálfsögðu þá gera allt til þess að fá manninn sinn heim og henni lá á. „Mér var sagt að ef ég vildi eiga möguleika á að eignast barn þá þyrfti ég að frysta fósturvísa. Lyfjameðferðin hefur þessi áhrif á frjósemi. Þannig ég þurfti að berjast fyrir því að fá hann heim fyrr og það var rosalegt álag, ekki síst á geðheilsuna. Og þá frestaðist alltaf lyfjameðferðin,“ segir Ragnheiður en þau ákváðu að gifta sig hér heima sem fyrst því aðeins giftir eða sambúðarfólk mega frysta fósturvísa. Það gekk ekki áfallalaust.

Indverskir pappírar ekki gildir

„Hann kom hingað með alla pappíra og við ætluðum að drífa okkur í að gifta okkur en þá var sýslumaðurinn eitthvað erfiður. Hann horfir á hjúskaparvottorðið hans, sem er í raun yfirlýsing frá foreldrum hans að hann sé einhleypur. Í indverskri menningu er þetta nóg og þetta var stimplað af lögmanni, héraðsdómstólum, landsdómstól, utanríkisráðuneyti Indlands og indverska sendiráðinu á Íslandi. En sýslumanni fannst þetta ekki nóg,“ segir Ragnheiður sem var bæði reið og vonsvikin yfir þessu. Hún hafði hvorki heilsu né tíma til að sækja fleiri pappíra til Indlands því það lá mikið á að komast í að frysta egg og geta svo hafið lyfjameðferð. „Við töluðum við lögfræðing og þá hjá indverska sendiráðinu og þeir voru svo móðgaðir. Þeim fannst að sýslumaðurinn í Reykjavík væri að gera lítið úr indverskum háttum.“

Fengu að frysta fósturvísa

Ragnheiður segir að þá hafi góð ráð verið dýr því tíminn var að renna út en þá hafi fyrirtækið IVF klíník leyft þeim að koma til sín í meðferð. „Þau skildu okkar aðstöðu og ákváðu að svo lengi sem fósturvísirinn yrði settur upp eftir að við værum gift, skipti það ekki máli þótt við værum ekki gift þegar hann væri frystur. Þetta tók svo rosalega á, allt þetta drama í kringum sýslumann og það að fá ekki að giftast, og þetta með fósturvísana og hvenær ég færi í lyfjameðferðina. Ég þurfti að taka kvíðastillandi lyf. Ég gat ekki sofið og ég get ekki trúað öðru en að þetta hafi haft neikvæð áhrif á krabbameinið,“ segir hún en læknirinn sagði henni að æxlið hefði stækkað á þessum mánuðum.

Þau kærðu úrskurðinn en lögfræðingurinn þeirra fann í lögunum að ef annar aðilinn er alvarlega veikur þá á fólk ekki að þurfa að ganga í gegnum svona auka pappírsvinnu. „Það er langt síðan að þetta var sent inn svo þetta yrði tekið fyrir, í apríl eða maí, en við erum ekki búin að fá neitt svar enn,“ segir Ragnheiður en niðurstaðan kom nú í vikunni, nokkru eftir að viðtalið var tekið. Sýslumaðurinn í Reykjavík synjaði beiðninni aftur.

Setti samt upp hringinn

Þau grunaði ekki að gögnin yrðu ekki tekin gild og áður en það kom í ljós í vor stóðu þau í ströngu við að undirbúa brúðkaupið. Vonbrigðin voru ólýsanleg þegar fyrri synjunin kom en búið var að ákveða daginn og allt var klárt fyrir ungu hjónaleysin að innsigla ástina með hringum. „Okkur lá á að gifta okkur og við fengum dagsetningu sem var 7. apríl. Við vorum búin að panta hringana, fara með kjólinn í hreinsun og velja vöndinn þegar við fáum þessa synjun. Ég er samt búin að setja upp hringinn minn, mér fannst svo sorglegt að hafa hann bara í kassa ofan í skúffu,“ segir hún og sýnir blaðamanni fallegan gullhring með demöntum. Hún hafði einnig litað hár sitt í alls kyns litum í stíl við kjólinn því hún vissi að það styttist í að hárið færi alveg.

Óvissan eykur á vanlíðan

Mánuðir liðu og nú er fallega hárið farið og enn fær hún ekki leyfið til að giftast ástinni sinni. „Ég elska þennan mann!“ segir hún en nú stefnir allt í að Raví verði að snúa aftur heim til Indlands í lok ágúst. Það liggur því á að fá að gifta sig. „Það er verið að reyna að fá í gegn hjá Vinnumálastofnun að hann sé sérfræðingur, sem hann náttúrlega er. Það fer ekki hver sem er að rafta með fólk niður einhverjar flúðir. Svo er hann líka fjallaleiðsögumaður. Þá væri hægt að breyta atvinnuleyfinu svo við gætum fengið að gifta okkur vonandi. Þetta tekur rosa langan tíma og þegar ég hringdi í sýslumanninn var mér sagt að þar væri mannekla,“ segir hún og eykur þessi mikla óvissa á vanlíðan og áhyggjur sem eru nóg af fyrir. „Ef hann fer heim í haust má hann ekki koma aftur fyrr en næsta sumar og það þýðir það að ég er ein án hans í sex mánuði, í þessari krabbameinsbaráttu. Sem er ömurlegt. Að fá ekki að hafa hann hérna. Mig langar helst að fara að gráta þegar ég hugsa um þetta.“ Ragnheiður segir að ef þau færu til Indlands og giftu sig þar væri þetta ekki svona flókið. „Þá þyrftum við eiginlega enga pappíra. En ég get ekkert farið til Indlands. Ekki núna.“

Viðtalið má lesa í heild sinni í sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert