Kröfum flugskýlaeigenda hafnað

Frá Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli.
Frá Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/RAX

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kæru eigenda þrettán flugskýla á Reykjavíkurflugvelli á deiluskipulagi flugvallarins sem tók gildi í sumar. Eigendur skýlanna vildu að skipulagið yrði ógilt eða gildistöku þess frestað þar til komið væri upp nýrri aðstöðu og bótaréttur þeirra yrði til lykta leiddur.

Nefndin hafði áður ógilt deiliskipulagið eftir að í ljós kom að breytingar höfðu verið gerðar á texta greinargerðar þess og umsögn skipulagssviðs án þess að breytingarnar hefðu verið lagðar fyrir borgarstjórn eða borgarráð. Skipulagið fól í sér að skipulagssvæðið var minnkað og gert var ráð fyrir lokun NA/SV-flugbrautarinnar. Starfsemi á svonefndum Fluggörðum ætti ennfremur að víkja.

Skipulagið var því samþykkt hjá borginni á nýjan leik og tók gildi í júní.

Frétt mbl.is: Ógiltu skipulag flugvallarins

Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar segir að krafa kærenda byggist einkum á að ákvörðun borgaryfirvalda um að Fluggarðasvæðið verði víkjandi brjóti gegn lögvörðum eignarréttindum þeirra. Borgin hafi hins vegar farið að lögum við skipulagsákvörðunina. Ekki sé í verkahring nefndarinnar heldur dómstóla að úrskurða um álitaefni ef kærendur telji réttindum sínum raskað af gildistöku deiliskipulagsins með bótaskyldum hætti.

Því hafnaði úrskurðarnefnd kæru eigenda flugskýlanna.

Úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert