Skiptir sköpum fyrir ungt fólk

Frá fundinum í Hörpu,
Frá fundinum í Hörpu, mbl.is/Þórður

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist trúa því að góð samstaða verði á þingi um frumvörp ríkisstjórnarinnar um úrræði til aðstoðar nýjum kaupendum á húsnæðismarkaði. Frumvörpin voru kynnt á blaðamannafundi í Hörpu í dag, en ríkisstjórnin samþykkti þau á fundi sínum í morgun.

Fram kom í máli Bjarna að þegar núverandi ríkisstjórn tók við árið 2013 hefði verið ljóst að skuldsetning heimilanna væri sjálfstætt efnahagslegt vandamál. Hún hefði verið gríðarleg, yfir 100% af landsframleiðslu, og ein sú allra mesta þegar litið væri til nágrannaþjóða okkar.

„Þessi mynd hefur gjörbreyst,“ sagði Bjarni. Nú væri skuldsetning heimilanna orðin lægri en síðan fyrir síðustu aldamót. Um gríðarmikla breytingu á stuttum tíma væri að ræða.

Samhliða því hefði sjónum verð beint í frekari mæli að getu ungs fólks í landinu til þess að koma þaki yfir höfuðið. 

Dramatískar breytingar á skömmum tíma

Bjarni benti á að dramatískar breytingar hefðu orðið á séreignarfyrirkomulaginu í íslensku samfélagi á tiltölulega skömmum tíma. „Á aðeins tíu árum hefur stórlega fækkað þeim sem búa í eigin húsnæði,“ sagði ráðherra og benti á að með aðgerðum sínum væri ríkisstjórnin fyrst og fremst að bregðast við þeirri stöðu.

Í frumvarpi til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð verður meðal annars lagt til að gildandi úrræði um nýtingu séreignarsparnaðar til lækkunar á höfuðstól fasteignalána verði framlengt um tvö ár. Bjarni sagði að á fjórða tugþúsund manna nýttu sér nú úrræðið, sem væri afar vinsælt.

mbl.is/Þórður

Tilgangur aðgerða ríkisstjórnarinnar er að sögn að auka og hvetja til húsnæðissparnaðar og auðvelda fyrstu kaup.

Geta flutt áunnin réttindi sín

Lagt er til að einstaklingar sem hafa þegar hafið uppsöfnun á iðgjöldum, til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota á grundvelli núgildandi ákvæðis til bráðabirgða í lögum um skyldutryggngu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en ekki nýtt sér þá heimild fyrir 1. júlí 2017, verði heimilað að flytja áunnin réttindi sín og nýta þau á grundvelli frumvarpsins ef um kaup á fyrstu íbúð er að ræða.

Jafnframt er lagt til að rétthafar sem þegar hafa nýtt rétt á grundvelli umrædds ákvæðis til bráðabirgða og eftir atvikum ráðstafað iðgjöldum inn á höfuðstól fasteignarveðlán, sem teið var í tengslum við öflun á íbúðarhúsnæðinu, verði heimiluð áframhaldandi nýting á viðbótariðgjaldi sínu til greiðslu inn á lánið þangað til tíu ára samfellda tímabili frumvarpsins er náð.

Heimildin tekur til þeirra sem voru að kaupa fyrstu fasteign sína.

Val á milli þriggja leiða

Í frumvarpinu er auk þess kveðið á um þrjár leiðir sem rétthafi getur valið á milli við ráðstöfun á viðbótariðgjaldi. Þær eru heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstiu íbúð, heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með verði í fyrstu íbúð, yfir tíu ára samfellt tímabil og að lokum heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess.

Úrræðið er varanlegt en hámarkstími er samfellt tíu ára tímabil fyrir hvern einstaklng.

Greiðslur hvers einstaklings inn á séreignarsparnað geta numið allt að fimm milljónum króna á tíu ára tímabili, samtals tíu milljónir fyrir par. Fyrir þá sem ekki eru þegar með séreignarsparnað getur sú ákvörðun að leggja fyrir og nýta sparnað til húsnæðiskaupa samsvarða um þriggja prósenta launahækkun í tíu ár vegna skattalegs hagræðis og mótframlags launagreiðanda.

Skiptir sköpum fyrir ungt fólk

Bjarni sagði að þessi stuðningur skipti sköpum fyrir ungu kynslóðina til þess að geta komið þaki undir höfuðið. Það væri það sem langflestir af þeirri kynslóð stefndu af því að geta gert.

Hann sagði að við hefðum lært á undanförnum árum að samhliða opinberum aðgerðum væru margir aðrir þættir sem þyrftu að vera í lagi til þess að stuðla að eftirsóknarverðri þróun á húsnæðismarkaði, svo sem lág verðbólga og kaupmáttaraukning.

Hvatarnir þyrftu hins vegar að vera þannig úr garði gerðir að þeir nýttust sem flestum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert