Varaði við geymslu kjarnavopna á Íslandi

Keflavíkurflugvöllur árið 1955.
Keflavíkurflugvöllur árið 1955. Ljósmynd/Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna

Bandarískir ráðamenn íhugðu að geyma kjarnorkuvopn hér á landi á árum kalda stríðsins án þess að upplýsa íslensk stjórnvöld um það. Þetta sýna bandarísk skjöl sem nýverið voru gerð opinber af Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna. Þar á meðal er bréf sem þáverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Tyler Thompson, sendi til stjórnvalda í Washington í ágúst 1960 þar sem fjallað er um málið.

Thompson varar við því í bréfinu að slík framganga gagnvart íslenskum stjórnvöldum gæti leitt til þess að Íslendingar segðu skilið við Atlantshafsbandalagið (NATO) og nýst andstæðingum Bandaríkjanna í áróðusskyni. Strikað hefur verið yfir skírskotanir til Íslands í bréfinu en ljóst þykir að átt er við landið enda Thompson sendiherra hér á landi á þeim tíma.

Vitað er að bandarísk stjórnvöld veltu fyrir sér þeim möguleika að geyma kjarnorkuvopn hér á landi en Valur Ingimundarson sagnfræðingur hefur fjallað um málið. Meðal annars var reist hér sérstök geymsla í þeim tilgangi en ekki er vitað til þess að hún hafi nokkurn tímann verið nýtt til þess að geyma slíkan vopnabúnað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert