„Lögum ekki spítala með því að loka skólum“

Fjöldi flóttamanna hefur ekki verið jafnmikill á heimsvísu síðan undir …
Fjöldi flóttamanna hefur ekki verið jafnmikill á heimsvísu síðan undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Hér á landi hafa málefni innflytjenda og hælisleitenda verið nokkuð í umræðunni líkt og í nágrannalöndum okkar. AFP

Í byrjun júní á þessu ári voru samþykkt ný útlendingalög eftir heildarendurskoðun sem þingmannanefnd allra flokka stóð að. Lögin munu taka gildi um næstu áramót. Undanfarið hafa verið talsverðar umræður um lögin og var meðal annars efnt til mótmæla á Austurvelli í gær þar sem lögunum var mótmælt. Á sama tíma kom einnig saman samstöðuhópur flóttamanna og komu upp ryskingar milli hópanna.

Þá vakti athygli myndskeið þar sem Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, mætir til að rökræða við einstaklinga sem standa að Íslensku þjóðfylkingunni um nýju löggjöfina. Virðist talsverður munur á málflutningi milli Helga og mótmælenda. mbl.is ákvað að skoða hvað nýja löggjöfin felur nákvæmlega í sér varðandi þær fullyrðingar að nýju lögin opni landamæri og um kostnað vegna hennar. Rætt var við Óttar Proppé, formann Bjartrar framtíðar og formann þingnefndarinnar um endurskoðun laganna, og Írisi Björg Kristjánsdóttur, sérfræðing hjá innanríkisráðuneytinu á sviði mannréttinda og sveitarfélaga og starfsmann nefndarinnar á sínum tíma.

„Vildum losa um óþarfa tappa í kerfinu“

Óttarr segir að grunnhugsunin á bak við lögin hafi verið að gæta að og tryggja mannúð í málaflokknum og uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Þá hafi verið stefnt að því að auka skilvirkni í kerfinu og fá betri nýtingu fjármuna samhliða aukinni skilvirkni gagnvart notendum, sem eru meðal annars innflytjendur, atvinnulífið, skólakerfið og fleiri.

„Við vildum losa um óþarfa tappa í kerfinu. Svona „computer says no“-tappa,“ segir Óttarr. Segir hann mestu umræðuna snúast um umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem í daglegu tali kallast hælisleitendur. Óttarr segir þetta þó vera lítinn hluta nýju laganna. Í honum sé talsvert um breytingar, en það tengist mest því að samhæfa lögin að skuldbindingum og mannréttindasáttmálum sem Ísland sé hluti af og að sníða lögin að reynslu síðustu 15 ára síðan gömlu lögin voru sett.

Óttarr Proppé, formaður Bjartar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartar framtíðar. Styrmir Kári

Fullyrðingar um opnun landamæra rangar

Óttarr segir allar fullyrðingar um að verið sé að breyta lögum um landamæri eða aðgang að landinu þó vera rangar. Aðalatriðið í þeim málum sé Schengen-samstarfið sem séu ytri landamæri Íslands. Með því samstarfi og EES-samningnum sé stórum hluta íbúa Evrópu gefið leyfi til að búa hér og vinna eins og Íslendingar geta farið utan.

Segir hann engar breytingar hafa verið gerðar á landamæraeftirliti og þær litlu breytingar sem skipti þarna máli tengist heimildum til landvistar. Útskýrir Óttarr að þar sé meðal annars átt við þau réttindi sem erlendir námsmenn hér á landi vinna sér inn færist milli flokka þegar námi lýkur og svo ef útlendingar eignist fjölskyldu hér á landi. Þá sé sömuleiðis rýmkað fyrir menntafólk að hoppa á milli mismunandi forma að sögn Óttars. „Það var engin grundvallarbreyting á möguleika fólks að koma hingað. Stóra breytingin var með EES,“ segir hann.

Segir hann að fyrir fólk utan EES-svæðisins sé eftir sem áður ekki auðvelt að setjast að á Íslandi. Líkir hann því við ferli fyrir Íslendinga sem ætla sér að flytjast til Bandaríkjanna eða Japan sem sé nokkuð snúið.

Undir þetta tekur Íris og segir t.d. að nýju lögin geri ekki breytingu á því hver sé flóttamaður og þurfi vernd. Það sé skilgreining sem komi frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og gildi áfram. Eins og Óttarr segir hún stærstu breytinguna vera greiningarferli við komu flóttamanna til landsins, t.d. varðandi fólk í viðkvæmri stöðu. Þá séu breytingar og úrbætur vegna sérfræðinga, vísindamanna og námsmanna sem hingað leita.

Íris Björg Kristjánsdóttir, sérfræðingur í málefnum hælisleitenda hjá innanríkisráðuneytinu.
Íris Björg Kristjánsdóttir, sérfræðingur í málefnum hælisleitenda hjá innanríkisráðuneytinu.

Breytingar verði frekar til hlutfallslegar lækkunar útgjalda

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að afgreiðslutími í hælisleitendamálum styttist og stjórnsýsla einfaldist. Í kostnaðarmati sem fylgir lögunum kemur fram að einskiptiskostnaður vegna frumvarpsins sé 18 milljónir á fyrsta ári og svo aukinn kostnaður hjá Útlendingastofnun verði 16,2 milljónir á ári. Heildaráhrifin eru þó talin líklegri til heildarlækkunar: „Erfitt er að meta fjárhagsáhrif þessara breytinga en þó má gera ráð fyrir að þær verði frekar til lækkunar útgjalda ríkissjóðs til þessara mála,“ segir í kostnaðarmatinu.

Heildarkostnaður aukist vegna fjölgunar hælisleitenda

Þrátt fyrir þetta hefur kostnaður vegna útlendingamála aukist til muna undanfarin ár, en árið 2016 er gert ráð fyrir 1.041 milljón í málaflokkinn. Til samanburðar var kostnaður til þessara mála árið 2011 um 97 milljónir, árið 2012 var hann um 221 milljón, árið 2013 fór hann upp í 436 milljónir, árið 2014 var hann í 463 milljónum og í fyrra kominn upp í 748 milljónir.

Til að útlista útgjöldin á þessu ári nánar þá eru áætlaðar 355 milljónir í Útlendingastofnun, 556 milljónir í hælisleitendur og 130 milljónir í  fastanefndir. Íris segir að undir málaflokk Útlendingastofnunar sé öll málsmeðferð, en undir flokknum hælisleitendur sé kostnaður vegna umönnunar, húsnæðis fyrir flóttamenn, samninga við sveitarfélög, lögreglu, Rauða kross Íslands o.fl. Undir fastanefndir er kærunefnd útlendingamála, en starfsmönnum hennar er fjölgað í nýju lögunum.

Bæði Óttarr og Íris benda á að þótt gömlu lögin hefðu staðið áfram hefði kostnaður vegna hælisleitenda ekki minnkað þar sem Ísland sé bundið af alþjóðlegum skuldbindingum um úrræði og málsmeðferð vegna hvers einstaklings. Segja þau raunar að kostnaður á hvern hælisleitanda eigi að lækka með nýju löggjöfinni vegna einföldunar í stjórnsýslu og styttri biðtíma sem leiði til þess að greiða þurfi fyrir umönnun, húsnæði og sjúkrakostnað í skemmri tíma en áður.

Nýju lögin breyta ekki fjölda hælisleitenda

Óttarr segir framlög í málaflokkinn vera háð því hversu margir séu í kerfinu og það hafi í raun ekkert með nýju lögin að gera. Segir hann að Ísland líkt og önnur Evrópulönd hafi ekki farið varhluta af aukningu flóttamanna í heiminum. Þannig hafi ekki jafnmargir verið á flótta síðan frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þessi fjölgun sé mikil þó hún sé enn langt undir því sem sjáist erlendis.

Hælisleitendum hefur undanfarin ár fjölgað mikið. Sem dæmi er fjöldi umsókna um hæli það sem af er þessu ári kominn upp í 316, en var á sama tíma í fyrra 108. Þessi fjölgun hefur átt sér stað án þess að nýju lögin hafi tekið gildi, en gildisdagsetning þeirra er um næstu áramót.

„Við lögum ekki sjúkrakerfið með því að loka skólum

Spurður um þá kröfu sem meðal annars kom fram á mótmælunum í gær, að fyrst eigi að setja fjármuni í velferðarkerfi hér á landi fyrir Íslendinga áður en fjármunir fara í útlendingamál, segist Óttarr ekki vera hrifinn af svona svart-hvítri skiptingu. „Ég er ekki hrifinn að því að skipta útgjöldum ríkisins með annaðhvort eða. Við lögum ekki sjúkrakerfið með því að loka skólum,“ segir Óttarr. Hluti útgjalda málaflokksins fari meðal annars í ferli sem tengist innflutningi vinnuafls sem vanti hér á landi. Bendir hann á að flutningur útlendinga hingað til lands sé að mestu atvinnudrifinn og fólk komi hingað þegar okkur vanti vinnuafl og því sé langsótt skýring að segja útlendinga vera að stela störfum.

Segir Óttarr að útlendingamálefni og hælisveitingarferli sé hluti af verkefnum ríkisins og tengist alþjóðlegum skuldbindingum landsins sem sé hluti af stöðu okkar í samfélagi þjóða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert