Getum ekki lokað landamærunum

Helgi Hrafn Gunnarsson ræðir við félaga Íslensku þjóðfylkingarinnar.
Helgi Hrafn Gunnarsson ræðir við félaga Íslensku þjóðfylkingarinnar. mbl.is/Freyr

Íslendingar geta ekki lokað landamærum sínum á sama tíma og hátt í tvær milljónir ferðamanna koma hingað, að sögn Helga Hrafns Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Taka þarf vel á móti útlendingum sem hingað koma óháð því hvort þeir séu fleiri en allir vilja eða ekki.

Athygli vakti þegar Helgi Hrafn steig út af þingfundi í gær til þess að rökræða við mótmælendur á vegum Íslensku þjóðfylkingarinnar sem mótmæltu nýjum útlendingalögum á Austurvelli. Benti þingmaðurinn þeim á að gagnrýni þeirra væri ekki byggð á staðreyndum. Sjá má rökræðurnar í frétt á vef Ríkisútvarpsins.

Við upphaf þingfundar í dag undir liðnum störf þingsins kvaddi Helgi Hrafn sér hljóðs til að ræða um útlendingamál. Vísaði hann til mótmælanna fyrir utan þinghúsið í gær og sagði að ekki væru allir á eitt sáttir um hvernig ætti að haga málum í þeim málaflokki.

Allir ættu hins vegar að vera sammála um að taka eigi vel á móti útlendingum sem hingað koma, óháð hvaða skoðun fólk hefur á því hversu auðvelt eigi að vera að koma til Íslands.

„Nú er búist við því að ferðamenn verði um 1,7 milljónir á Íslandi núna í ár síðast þegar ég vissi. Við getum ekki einfaldlega lokað landamærunum. Fólk getur og mun halda áfram að geta einfaldlega komið hingað,“ sagði þingmaðurinn.

Oft erfið og heiftúðug umræða

Það fólk muni sækja um hæli, bíða eftir niðurstöðu og því muni fylgja einhvers konar kostnaður. Því muni jafnframt fylgja ákvarðanir. 

„Í kjölfar þeirra ákvarðana, hverjar sem þær eru, verðum við að hafa innviði til að taka á móti fólki með þeim hætti að það eigi hvað auðveldast með að taka þátt í íslensku samfélagi því að það vilja allir. Það vill fólkið sem kemur hingað. Það vill fólkið sem er hérna,“ sagði hann.

Sagðist Helgi Hrafn vonast til þess að þrátt fyrir erfiða og oft hatramma og heiftúðuga umræðu geti þingmenn sýnt samstöðu og gert það vel hvað sem þeir kjósa að gera.

Uppfært: Helgi Helgason, formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar, segir flokkinn ekki hlynntan því að loka landamærum Íslands og alls ekki fyrir ferðamönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert