Kærður fyrir að nauðga 15 ára stúlku

mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að karlmaður á þrítugsaldri sæti farbanni til 9. september vegna rannsóknar lögreglu á kæru á hendur honum fyrir meint kynferðisbrot gegn 15 ára stúlku. 

Stúlkan segir hana hafa hitt manninn og félaga hans aðfaranótt sunnudagsins 17. júlí og farið með þeim á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur þar sem hann hefði gefið henni þrjá bjóra. Hún hafi orðið verulega ölvuð. Þegar síminn hennar hafi orðið rafmagnslaus hafi maðurinn boðið henni að hlaða hann heima hjá honum sem hún hafi þegið.

Maðurinn hafi sagt að þau gætu síðan komið aftur á skemmtistaðinn. Þegar þangað hafi komið hafi maðurinn læst hurðinni og haft við hana samfarir gegn vilja hennar. Að því loknu hafi hann vísað henni út og sagt henni að hún mætti ekki segja neinum frá þessu. Vinkona hennar hafi sótt hana og farið beint með hana til lögreglunnar.

Maðurinn, sem er erlendur ferðamaður, vísar því á bug að hafa brotið gegn stúlkunni og segir samfarirnar hafa verið með vilja hennar. Hann hafi ekki vitað að hún væri 15 ára gömul en stúlkan segist hafa sagt honum það. Héraðsdómur taldi ástæðu til þess að maðurinn sætti farbanni vegna lítilla tengsla við landið og féllst Hæstiréttur á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert