Reynir að hitta palestínskan fanga

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Eggert

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, er nú á ferð í Ísrael og Palestínu ásamt þremur öðrum þingmönnum, tveimur Írum og Grikkja, að beiðni palestínskra mannréttindasamtaka sem beita sér gegn fangelsunum án dóms og laga.

„Menn eru að kalla eftir stuðningi frá alþjóðasamfélaginu og þá einkum við andófið gegn fangelsun án dóms.“

Ögmundur kom á svæðið á sunnudagskvöld og heldur heim á morgun, en þingmennirnir hafa farið þess á leit að heimsækja palestínska fangann Bilal Kayed, sem er á 63. degi mótmælasveltis, en Kayed átti að vera sleppt um miðjan júní, eftir að hafa afplánað rúmlega fjórtán ára fangelsisdóm.

Mótmælasvelti Kayed hefur orðið til þess að fleiri fangar svelta sig nú er og er þetta stórt mál innan palestínska samfélagsins að sögn Ögmundar, en á vefsíðu sinni segir hann um 750 Palestínumönnum vera haldið í ísraelskum fangelsum án dóms, þar á meðal börnum og unglingum.

Þingmennirnir hafa enn ekki fengið svar við ósk sinni um að hitta Kayed og segist Ögmundur ekki bjartsýnn á að það muni gerast. „Við viljum fá formlegt svar, ella munum við senda frá okkur yfirlýsingu áður en við förum, en við erum enn að reyna að þrýsta á að fá að heimsækja hann á fangelsissjúkrahúsið, þar sem hann er hlekkjaður við rúm sitt.“

Spurður hvers vegna fjórmenningarnir séu nú staddir í Palestínu, en ekki aðrir þingmenn, svarar Ögmundur: „Við erum fólkið sem svaraði kallinu. Ég trúi því að þessu kalli sé beint til okkar, því við höfum öll sýnt áhuga á þessari mannréttindabaráttu í Palestínu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert