Vill taka fleiri mál til efnismeðferðar

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, vill taka fleiri mál hælisleitenda til efnislegrar meðferðar í stað þess að brottvísa þeim sem flestum á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Þetta sagði hann undir dagskrárliðnum störf þingsins á Alþingi.

Hann sagði það algengan misskilning að það kosti sjálfkrafa meiri peninga að taka mál til efnismeðferðar, en á sama tíma gleymist í umræðunni kostnaðurinn sem fylgi því að segja nei. Í reynd fylgi því kostnaður þar sem málin séu kærð þar sem þau brölta um í bákninu sem skapað hafi verið til að halda hælisleitendum frá landinu, líkt og Helgi Hrafn orðaði það.

„Ég vil vita hvað það kostar báknið að halda fólki frá landinu í stað þess að taka fleiri mál til efnismeðferðar,“ sagði Helgi Hrafn og bætti við að hann vilji meina að kostnaðurinn sé meiri við að reka kerfið til að hafna efnislegri meðferð hælisleitenda í stað þess að taka fleiri mál til efnismeðferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert