Bjarni „konungur millifærslukerfa“

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að úrræði ríkisstjórnarinnar til aðstoðar fyrstu íbúðakaupendum séu hvorki sanngjörn né skynsamleg. Aðeins sé verið að búa til nýtt millifærslukerfi þar sem tekjuháir fái mesta styrkinn.

Hann gagnrýndi harðlega frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð á Alþingi í dag og kallaði Bjarna „konung nýrra millifærslukerfa“.

Árni Páll sagði ekki deilt um mikilvægi þess að gripið yrði til aðgerða sem nýtist fyrstu íbúðarkaupendum. Hins vegar skipti máli hvernig það væri gert.

„Fyrsta sem maður rekur augun í er sú staðreynd að hér er verið að bjóða fólki að nýta eigin sparnað með skattaafslætti til þess að lækka skuldir. Það er með öðrum orðum verið að bjóða fólki að nýta sína eigin peninga og stuðningur ríkisins verður þeim mun meiri eftir því sem fólk á meira af þessum peningum,“ sagði hann.

Gæti spennt upp fasteignaverð

Þakið yrði ekki fullnýtt fyrr en við 1.400 þúsund krónur sem þýddi að þeir sem ættu alveg næga peninga til þess að kaupa sína fyrstu íbúð, vegna þess að þeir væru með 1.400 þúsund krónur í laun, myndu fá ríkisstyrk til þess að bjóða betur í íbúðir og spenna upp fasteignaverð.

„Að því leyti er þetta alls ekki skynsamleg aðgerð þjóðhagslega séð og ósanngjörn af þessum ástæðum,“ sagði Árni Páll.

Hann sagði að líkt og í leiðréttingunni svonefndri væri verið að búa til nýtt millifærslukerfi. Kerfið tæki hins vegar ekki tillit til eigna eða tekna með jákvæðum hætti. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

„Alveg eins og í leiðréttingunni þegar fólk sem þekkti aðeins skuldavanda af afspurn fékk peninga frá hinu opinbera, og þeir sem voru í mestum skuldavanda og skulduðu mest miðað við laun fengu minnst, þá er núna búið að búa til kerfi þar sem engin trygging er fyrir því að stuðningurinn fari til þeirra sem raunverulega eiga í vanda með að kaupa sér íbúð,“ sagði hann.

Ríkisstjórnin hefði veikt millifærslukerfið sem fyrir væri, vaxtabótakerfið, sem einmitt gætti þess að þeir sem ættu miklar eignir og skulduðu lítið fengu ekki neitt.

Eins öfugsnúið og hægt er

Þess í stað hefði hún búið til nýtt millifærslukerfi til þess að „bera fé á þá sem skulda lítið, hafa miklar eignir og háar tekjur“.

„Ömurlegt“ væri að heyra fjármálaráðherra halda því fram að hann væri á móti millifærslukerfum. „Hann er konungur nýrra millifærslukerfa. Hann er að kynna millifærslukerfi númer tvö sem er eins öfugsnúið og mögulegt er, veitir fé hlutfallslega mest til þeirra sem minnst þurfa á því að halda, alveg eins og leiðréttingin gerði,“ sagði Árni Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert