„Fyrsta fasteign“ í hnotskurn

Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar kynntu nýtt úrræði fyrir ungt fólk til að …
Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar kynntu nýtt úrræði fyrir ungt fólk til að festa kaup á fyrstu fasteign á mánudaginn. Um er að ræða varanlegt úrræði. mbl

Á mánudaginn kynnti ríkisstjórnin nýtt úrræði fyrir ungt fólk sem á að auðvelda því að kaupa sínu fyrstu fasteign. Gengur úrræðið út á að þeir sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð geti nýtt sér séreignarlífeyrissparnað til að safna fyrir innborgun á fyrstu íbúðakaupin, greitt inn á höfuðstól íbúðarinnar eða farið blandaða leið þar sem bæði er greitt inn á höfuðstól lánsins og hluti notaður til að lækka mánaðarlega afborgun þess.

mbl.is skoðaði hvernig þessar leiðir koma út og hversu langt þær ná upp í almenna útborgun fyrir fasteign.

Hvatinn með þessu úrræði er að ungu fólki gefst færi á að nýta sparnað sem almennt er geymdur til elliáranna og taka allt að 500 þúsund krónur af inngreiðslum í slíkan sjóð árlega og setja í söfnun fyrir íbúðakaupum, niðurgreiðslu láns eða til að niðurgreiða lán og lækka greiðslubyrði. Um er að ræða skattlausar tekjur og því sparar viðkomandi að greiða tekjuskatt upp á 37,13% til 46,25% sem hann annars þarf að greiða af tekjum áður en hægt er að nota þær til að greiða af lánum.

Í útreikningunum eru tekin tvö mismunandi dæmi. Annars vegar fyrir einstakling og hins vegar par. Er hvoru dæminu svo skipt upp í þrjá launaflokka og mismunandi sparnaðarleið.

Launaflokkarnir sem horft er til eru flokkur þar sem einstaklingur hefur 694.444 krónur í mánaðarlaun, en með fullum viðbótarlífeyrissparnaði fæst hámarksnýting á úrræðinu. Þá er miðað við meðallaun á Íslandi en notast er við tölur Hagstofu um regluleg laun fullvinnandi einstaklings frá því árið 2014 og er það uppreiknað miðað launavísitölu til júní á þessu ári. Nema þau laun um 546 þúsund á mánuði. Að lokum er horft til meðallauna í neðsta fjórðungi samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu og eru þau laun einnig uppreiknuð miðað við launavísitölu. Nema þau laun um 377 þúsund á mánuði.

Þegar kemur að sparnaðarleiðum með viðbótarlífeyrissparnað er tvennt í boði. Hægt er að  greiða 2% eða 4% af launum í slíkan sjóð og greiðir þá launagreiðandi 2% aukalega á móti.

mynd/mbl.is

Fyrstu íbúðakaup einstaklings

Fyrir fólk sem er að horfa til að kaupa sína fyrstu íbúð er meðalverð í dag fyrir litla tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu um 25 milljónir. Hægt er að fá 85% lán hjá viðskiptabönkum, en því er venjulega skipt í 70% lán til lengri tíma og 15% viðbótarlán til allt að 15 ára. Sé í boði 85% lán fyrir einstakling er því um að ræða lán upp á 21.250.000 krónur og útborgun upp á 3.750.000 krónur.

Í leið 1 er í boði að spara fyrir útborgun áður en fest er kaup á íbúð. Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu getur einstaklingur safnað fyrir fullri útborgun með viðbótarlífeyrissparnaði á 10 árum m.v. meðallaun og 4% + 2% sparnað þannig að afgangur verði upp á tæplega 200 þúsund. Hjá einstaklingi í neðri fjórðungi launaskalans er aftur á móti enn eftir gat upp á um 1 milljón. Sé sparnaðurinn 2% + 2% nær enginn hópanna þessu marki.

Það verður aftur á móti að líta til þess að þessi viðbótarlífeyrissparnaður er í raun viðbót við núverandi sparnað einstaklinga fyrir útborgun á sinni fyrstu fasteign. Séu menn að leggja fyrir að jafnaði er því líklegt að það takist að brúa bilið talsvert fyrr en 10 ár.

2,7 til 5 milljónir inn á lánið á 10 árum

Leið 2 felur í sér að greiða aukalega inn á lán vegna fyrstu íbúðakaupa. Á 10 ára tímabili getur sú upphæð numið 2,7 milljónum fyrir neðsta fjórðunginn og upp í 5 milljónir fyrir þá sem ná að fullnýta sér úrræðið. Þeir sem kjósa lægri sparnaðarleiðina eru sömu tölur frá 1,8 milljón upp í 3,3 milljónir.

Úrræðið Fyrsta fasteign er hugsuð til að auðvelda ungu fólki …
Úrræðið Fyrsta fasteign er hugsuð til að auðvelda ungu fólki að fjárfesta í fyrstu fasteign. Sigurður Bogi Sævarsson

Blandaða leiðin hvati til lántöku óverðtryggðra lána

Leið 3 hefur verið kölluð blandaða leiðin, en í henni er innbyggður hvati til að beina fólki að taka óverðtryggð lán. Geta lántakendur notað helming upphæðarinnar til að greiða inn á höfuðstól lánsins eins og í leið númer 2 og helming til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði. Í kynningu ríkisstjórnarinnar á mánudaginn var þessu lýst á þann hátt að þarna væri hægt að taka óverðtryggt lán en fá einn kost verðtryggðs láns sem er lægri greiðslubyrði.

Afborganir enn talsvert hærri en af verðtryggðu láni

Þó  greiðslur lánsins verða sannarlega lægri en ella vegna þessa úrræðis mun áfram muna talsverðu á þessari nýju tegund óverðtryggðra lána og verðtryggðra lána. Í dæminu sem fylgir hér með er t.d. stuðst við meðalverð á lítilli íbúð upp á 25 milljónir. Afborgun á slíku óverðtryggðu láni með nýju aðferðinni þegar einstaklingur er að fullnýta úrræðið er 140 þúsund á mánuði. Afborgun af verðtryggðu láni á þeim vöxtum sem bjóðast hjá Landsbankanum í dag er aftur á móti 105 þúsund á mánuði.

Fyrir hærra lán, upp á 27,2 milljónir, eins og notast er við í dæminu um parið í þessari frétt, er afborgun af nýju leiðinni rúmlega 170 þúsund en af verðtryggðu láni um 134 þúsund krónur. Lántaki óverðtryggða lánsins er þó í þeirri stöðu að sjá alltaf lán sitt lækka með hverri greiðslu meðan verðbólga eða verðhjöðnun geta haft áhrif á verðtryggða lánið.

Sjá má nánar áhrifin á greiðslubyrði óverðtryggðra lána m.v. nýja úrræðið í meðfylgjandi töflum bæði fyrir einstakling og pör.

mynd/mbl.is

Fyrstu íbúðakaup pars

Í dæminu um parið eru sömu forsendur notaðar og í dæminu um einstaklinginn ef frá er talið að horft er til þess að fyrsta íbúð kosti um 32 milljónir, en það er meðalverð á höfuðborgarsvæðinu fyrir tveggja eða þriggja herbergja íbúð sem er um 80-90 fermetrar. Vegna samlegðaráhrifa af hjúskap við íbúðakaup verður einnig horft til þess að hægt er að spara fyrir útborgun á styttri tíma en 10 árum.

Í leið 1 þar sem sparað er fyrir útborgun er núna miðað við 7 ár í stað 10 ára. Eins og sést á töflunni ætti par sem er með meðaltekjur eða hærri laun að ná að safna ríflega fyrir útborguninni meðan enn vantar um 1 milljón hjá pari sem er með meðallaun í neðri fjórðungi.  Þegar lægri sparnaðarleiðin er valin er par sem fullnýtir úrræðið við því að ná að safna fyrir fullri útborgun meðan talsvert vantar upp á hjá öðrum hópum. Þau hafa þó enn 3 ár upp á að hlaupa ef miða á við sömu tímalengd og í dæmi einstaklingsins.

Innborgun upp á 5,4 til 10 milljónir á 10 árum

Sé par þegar búið að kaupa íbúð getur leið 2 orðið til þess að á öllu tímabilinu, 10 árum, sé húsnæðislánið greitt niður um 5,4 til 10 milljónir eftir launaflokki sé hærri sparnaðarleiðin valin. Innborgunin nemur um 3,6 til 6,6 milljónum í lægri sparnaðarleiðinni.

Með blönduðu leiðinni er svo hægt að lækka mánaðarlegar greiðslur hjá meðallaunþegum um tæplega 33 þúsund með hærri sparnaðarleiðinni og greiða um 170 þúsund í stað 203 þúsund í afborgun lánsins. Fyrir par sem sparar í lægri sparnaðarleiðinni er munurinn minni og mánaðarleg greiðsla um 181 þúsund.

Hvað tekur langan tíma að spara upp í útborgun?

Að lokum er hægt að sjá á síðustu myndinni þann árafjölda sem það tekur eftir mismunandi sparnaðarleiðum og tekjuflokki að safna fjármunum til útborgunar. Er um að ræða tölur fyrir einstaklinga og því hægt að tvöfalda töluna fyrir par.

Árafjöldi sem það tekur til að spara fyrir útborgun á …
Árafjöldi sem það tekur til að spara fyrir útborgun á fyrstu fasteign með nýja úrræði ríkisstjórnarinnar, Fyrstu faste1gn. Graf/mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert