Hún var engill í mannsmynd

Mæðgurnar Lovísa Hrund og Hrönn Ásgeirsdóttir. Myndin er í miklu …
Mæðgurnar Lovísa Hrund og Hrönn Ásgeirsdóttir. Myndin er í miklu uppáhaldi hjá Hrönn. Ljósmynd/af heimasíðu Hlaupastyrks

Rúm þrjú ár eru liðin síðan Lovísa Hrund Svavarsdóttir lét lífið í hörðum árekstri þegar ölvaður ökumaður keyrði í veg fyrir Lovísu úr gagnstæðri átt. Hrönn Ásgeirsdóttir, móðir Lovísu, hleypur 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn fyrir minningarsjóð í nafni dóttur sinnar.

„Lífið án hennar er bara mjög erfitt,“ segir Hrönn í samtali við mbl.is. „Hún var svo yndisleg í alla staði, svo ótrúlega góð, snerti svo marga og var svo mikill gleðigjafi.“

Sjóðurinn

Minningarsjóður Lovísu Hrundar var stofnaður í þeim tilgangi að vinna að fræðslu og forvörnum gegn ölvunar- og vímuefnaakstri. Hrönn segir að ákaflega vel hafi gengið með sjóðinn, vel hefur gengið að safna og tekist að styrkja fjölda verkefna. Úthlutað hefur verið til verkefna á borð við auglýsingar, stuttmyndir, leikrit, fræðsluefni og haldnir hafa verið forvarnarfyrirlestrar.

Frétt mbl.is: Vilja að dauði hennar hafi tilgang

Þá hefur sjóðurinn tekið þátt í verkefnum af öðrum toga. „Sérstaklega erum við mjög stolt af að við höfum verið að veita verðlaun í skólana hérna á Akranesi,“ segir Hrönn, en sjóðurinn hefur veitt verðlaun til útskriftarnema úr 10. bekk fyrir annars konar árangur en góðar einkunnir.

Lovísa Hrund Svavarsdóttir lést þann 6. apríl árið 2013.
Lovísa Hrund Svavarsdóttir lést þann 6. apríl árið 2013. Ljósmynd/af heimasíðu Hlaupastyrks

Til að mynda hafa verið veitt verðlaun fyrir þátttöku í félagsstarfi, góðan árangur í matreiðslu og fyrir að vera góður við náungann. „Við viljum reyna að hvetja til náungakærleikans, hann skiptir svo miklu máli hjá krökkum í skóla, oft miklu meira heldur en að vera alltaf bestur í hinu og þessu,“ segir Hrönn sem er ákaflega stolt af þessu framlagi sjóðsins. Ekki síður í ljósi þess að Lovísa var mikil félagsvera og hve góð hún var við aðra. „Hún mátti ekkert aumt sjá,“ segir Hrönn, „hún var náttúrlega bara engill í mannsmynd.“

Þá hafa aðstandendur sjóðsins nokkrar stærri hugmyndir sem Hrönn vonast til, að með auknu fjármagni og samstarfi við stofnanir og stærri aðila, geti orðið að veruleika.

„Þetta er beint fyrir framan mann“

Hrönn telur að ennþá sé allt of algengt að fólk telji það vera í lagi að setjast undir stýri eftir að hafa neytt áfengis. Því sé málefnið mjög þarft, meira að segja í hennar nánasta umhverfi.

„Hún var svo yndisleg í alla staði, svo ótrúlega góð, …
„Hún var svo yndisleg í alla staði, svo ótrúlega góð, snerti svo marga og var svo mikill gleðigjafi.“ Ljósmynd/af heimasíðu Hlaupastyrks

„Þetta er bara beint fyrir framan mann,“ segir Hrönn en hún segir að jafnvel í sínum nánasta vinahópi sé fólk sem finnst í lagi að keyra eftir að hafa drukkið áfengi. „Nú er ég móðirin og missti barnið,“ segir Hrönn en það er ekki langt síðan hún hlustaði á vinkonu sína segjast ætla að keyra heim eftir að hafa drukkið tvo stóra bjóra.

„Þetta er fáránlegt, þetta er svo nálægt manni að það er bara ótrúlegt,“ segir Hrönn.

Segir hún markmiðið með sjóðnum meðal annars vera að uppræta þetta, reyna einkum að ná til yngri kynslóðarinnar í von um að í framtíðinni verði þetta ekki boðlegt. Þá telur hún mikilvægt að kerfið taki einnig á málinu, til dæmis með hærri sektum og þyngri dómum líkt og þekkist á Norðurlöndum. „Þó maður sé ekki beint refsiglaður, þá hefur það fælingarmátt.“

Snýst um meira en fráfall Lovísu

„Auðvitað hefur öll stórfjölskyldan breyst og þetta hefur verið rosalega erfitt að takast á við þetta,“ segir Hrönn sem hafði byggt upp líf sitt og fjölskyldu með Lovísu. „Ég missi hana. Þetta er bara hörku vinna að halda áfram að lifa, það er auðveldara að gefast upp,“ segir Hrönn. Hún kveðst þó vera á mjög góðum stað í dag en oft þurfi lítið til að detta aftur niður. „Það þarf kannski ekki nema lag eða lykt þá getur maður farið á byrjunarreit aftur.“

„Þetta er náttúrlega rosalegt óréttlæti sem hlýst af svona gjörningi,“ segir Hrönn sem bendir jafnframt á að sorgin og erfiðleikarnir snúast ekki aðeins um að þau hafi misst Lovísu. „Þú getur lent í því að sitja uppi með það að hafa orðið manneskju að bana og líf þitt bara búið,“ útskýrir Hrönn. „Manneskjan átti líka fjölskyldu og það er búið í raun og veru að eitra allt sem er líka svo erfitt.“

Hleypur í þriðja sinn

Maraþonið á laugardaginn verður það þriðja sem Hrönn tekur þátt í en hún hljóp fyrst árið 2014, árið eftir að Lovísa lést.

Ljósmynd/af heimasíðu Hlaupastyrks

„Markmiðið er náttúrlega alltaf að halda utan um heilsuna og hreyfa sig,“ segir Hrönn en hún segir Lovísu hafa verið mikla fyrirmynd þegar kemur að hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl. „Lovísa var svo mikil heilsufrík alltaf,“ útskýrir Hrönn.

Yfir 20 manns eru skráðir til leiks sem ætla að hlaupa í minningu Lovísu, þeirra á meðal eldri bróðir hennar, Ásgeir Sævarsson, sem situr jafnframt í stjórn minningarsjóðsins.

Reykja­vík­ur­m­araþon Íslands­banka fer fram 20. ág­úst næst­kom­andi. Hægt er að heita á Hrönn og Ásgeir í gegn­um heimasíðu hlaupastyrks, Hrönn hér og Ásgeir hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert