Segir aðgerðina mismuna ungu fólki

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Styrmir Kári

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, segir að með frumvarpi sínu um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð sé ríkisstjórnin að búa til sérstakt mismununartæki gagnvart ungu fólki. Aðgerðin muni auka verulega á aðstöðumun ungra fjölskyldna næstu tíu árin.

Frumvarpið var til umræðu á Alþingi í dag, en því er ætlað að auðvelda ungu fólki að festa kaup á sínu fyrsta húsnæði, meðal annars með því að nýta sér séreignarsparnað skattfrjálst. 

Steingrímur sagði að aðgerðin væri „félagslegur píramídi á hvolfi“. Ástæðan væri sú að „framlög ríkis og sveitarfélaga eru þeim mun meiri eftir því sem tekjur viðkomandi eru hærri þangað til þakinu er náð.

Þetta er hliðstætt því að reglurnar um persónuafsláttinn væru þannig að hann væri núll krónur fyrir lágmarkslaun en færi síðan vaxandi í áföngum eftir því sem launin hækkuðu. Dytti einhverjum í hug að hafa þannig persónufrádrátt?“ spurði Steingrímur.

Tók dæmi um þrjár fjölskyldur

Tók hann dæmi um þrjár fjölskyldur sem ættu sér allar þann draum að komast í eigið húsnæði. „En kerfið frá ríkinu er þannig að ein fjölskyldan fær núll krónur, sú í miðið fær tvær milljónir og best setta fjölskyldan fær fjórir milljónir frá ríki og sveitarfélögum. Þessi mismunun raungerist ekki nema á tíu árum en útkoman er sú sama,“ sagði hann.

Hann sagði að fyrsta fjölskyldan væri með lágar tekjur, aðflutt og hefði þurft að leigja sér húsnæði. Hún hefði því ekki haft kost á því að spara í séreignarsparnaði – hefði ekki haft ráð á því. „Hún fær núll krónur í stuðning af sameiginlegu aflafé landsmanna, skatttekjum, til þess að koma sér upp húsnæði,“ sagði Steingrímur.

Næsta fjölskylda hefði lágar eða miðlungstekjur og sparaði eins og hún gæti til þess að geta tekið fullan séreignarsparnað af frekar lágum tekjum. „En vegna þess að launin eru svona lág, þá fær hún ekki nema helminginn af stuðningnum frá ríki og sveitarfélögum, ekki nema tvær milljónir, þó að hún þræli tíu árin á lágum launum til að reyna að mynda sparnað.“

Þriðja fjölskyldan væri vel sett, byggi í stórum kjallara í fínu einbýlishúsi í Reykjavík í skjóli foreldra. Hún væri í góðum færum til þess að spara fullan séreignarsparnað af háum tekjum í nokkur ár. Hún fengi fjórar milljónir króna þegar hún keypti sér sína fyrstu íbúð.

„Dytti einhverjum í hug að setja kerfið svona upp? Nei, auðvitað ekki,“ sagði Steingrímur. Verið væri að lögfesta til tíu ára „mismununartæki gagnvart ungu fólki. 

„Þetta stenst enga skoðun“

„Þetta gengur ekki. Svona geta menn ekki staðið að málum. Þetta stenst enga skoðun um jafnræði og sanngirni í okkar landi,“ sagði Steingrímur meðal annars. Spurði hann af hverju sambærilegir fjármunir væru einfaldlega ekki teknir og settir í almennan húsnæðisstuðning þannig að allir fengju jafnt.

Sjálfsaflafé fólks um að ræða

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svaraði Steingrími að bragði og sagði hann misskilja málið. Hér væri verið að tala um sjálfsaflafé fólks.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum að tala um sjálfsaflafé fólks sem við ætlum ekki að skattleggja. Í því liggur munurinn. Og þegar við gefum eftir skatta, tökum ekki af sjálfsaflafé fólks, þá er ekki hægt að líkja því við að við séum að dreifa skatttekjum ríkisins til borgaranna. Það er gallinn við þennan samanburð,“ sagði Bjarni.

Hann benti á að úrræðið væri í raun það nákvæmlega sama og lögfest var 2014, þ.e. að menn gætu tekið út þann séreignarsparnað sem þeir lögðu fyrir. Hann væri auðvitað meiri eftir því sem tekjurnar væru hærri.

„Þessi aðgerð jafnar til, eins og kynnt hefur verið, um það bil þriggja prósenta launahækkunar fyrir þá sem taka þátt,“ sagði hann.

Bjarni vakti enn fremur athygli á því að lögfestar hefðu verið sérstakar aðgerðir til þess að létta undir með þeim sem byggju í almennum félagsíbúðum eða fengju húsnæðisbætur.

Nóg væri komið af því að aðgerðum sem kæmu millitekjufólki í landinu til góða væri mótmælt. Fyrri ríkisstjórn hefði hækkað tekjuskatt á alla sem hefðu yfir 240 þúsund í tekjur. Það væri fólkið sem fór hvað verst út úr hruninu og var í hvað verstri stöðu eftir hrunið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert