Lúðrasveit tók á móti Valdimari

Valdimar Guðmundsson fór 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2016.
Valdimar Guðmundsson fór 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka 2016. Ljósmynd/af Facebook

Tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson táraðist næstum þegar hann kom í mark að loknum 10 kílómetrum í Reykjavíkurmaraþoninu í dag. Hann kveðst virkilega ánægður með daginn og gerir fastlega ráð fyrir að taka aftur þátt á næsta ári.

„Ég tók því nú frekar rólega bara, tók svona smá skokk í lokin bara,“ segir Valdimar í samtali við mbl.is en hann kom í mark á tímanum 02:12:46. „Ég er kominn með myndarlega blöðru hérna á fótinn en annars er ég bara góður.“

Hann svitnaði vel í veðurblíðunni og naut sín í stemmningunni í allan dag og segist hafa fundið fyrir mikilli hvatningu. „Þetta er bara yndislegt, það var alveg frábært að heyra fagnaðarlætin,“ segir Valdimar.

Vinir hans og fjölskylda höfðu sett saman litla lúðrasveit við endamarkið og tóku fagnandi á móti honum þegar hann kom í mark. „Ég bara alveg táraðist næstum því,“ útskýrir Valdimar.

Það sem eftir lifir dags ætlar hann að taka því rólega þar til hann kemur fram á tónleikum ásamt hljómsveit sinni í Hljómskálagarðinum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert