Margir vilja selfie með Guðna

Frá Reykjavíkurmaraþoninu í morgun.
Frá Reykjavíkurmaraþoninu í morgun. mbl.is/Ófeigur

Fyrstu menn eru komnir í mark í heilmaraþoni Reykjavíkurmaraþonsins en það var Kanadamaðurinn David Le Porho sem var fyrstur yfir marklínuna. Margt er um manninn í miðborginni og fylgist fjöldi fólks með hlaupurum koma í mark.

Fyrstur karla í hálfmaraþoninu var Hlynur Andrésson og fyrst kvenna var Helen Ólafsdóttir. Í 10 kílómetra hlaupinu varð fyrst Arndís Ýr Hafþórsdóttir og fyrstur karla var Lauri Takacsi-Nagy frá Finnlandi. Tími Arndísar er þriðji besti tíminn sem náðst hefur í 10 km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoninu. Sjálf átti hún þriðja besta tímann áður, 36:55 frá árinu 2014, en í ár bætti hún tíma sinn um fjórar sekúndur.

„Það gengur bara mjög vel, það streyma hérna hlaupararnir í mark,“ segir Anna Lilja Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurmaraþons. „Það er náttúrlega frábært veður þannig það eru allir í svo góðu skapi.“

Guðni fær knús að loknu hálfmaraþoni.
Guðni fær knús að loknu hálfmaraþoni. mbl.is/Ófeigur

Guðna Th Jóhannessyni, forseta Íslands, var vel fagnað þegar hann kom í mark í hálfmaraþoninu. „Það var klappað vel fyrir honum og fólk var spennt að fá „selfie“ með honum við marklínuna,“ segir Anna Lilja. Hafði kynnirinn á orði að ekki væri amalegt að eiga forseta sem væri slík fyrirmynd.

Anna Lilja hefur að svo stöddu ekki heyrt af neinum alvarlegum uppákomum hjá hlaupurum vegna hita sem er nokkru meiri en oft áður.

Næsta hlaup á dagskrá er skemmtiskokkið sem hefst klukkan 12:15 og þá hefst dagskrá vegna krakkamaraþonsins klukkan 13 í Hljómskálagarðinum.

Frá Reykjavíkurmaraþoninu í morgun.
Frá Reykjavíkurmaraþoninu í morgun. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert