„Brjálæði“ að senda þær aftur til baka

Afgönsku mæðgurnar vilja dvelja áfram á Íslandi.
Afgönsku mæðgurnar vilja dvelja áfram á Íslandi. Ljósmynd/Guðný Erna Bjarnadóttir

Hópur íslenskra kvenna hefur efnt til undirskriftasöfnunar vegna meðferðar á máli afganskra mæðgna sem hafa fengið neitun um hæli á Íslandi.

Hópurinn skorar á kærunefnd útlendingamála að endurskoða ákvörðun um að senda Maryam Raísi og Torpikey Farrash til baka til Svíþjóðar. Talið er nánast öruggt að þaðan verði þær sendar aftur til Afganistans. Einnig er skorað á íslensk stjórnvöld að taka mál þeirra fyrir á Íslandi og veita þeim hæli.

Geta ekki lifað af

Ein úr hópnum, kvikmyndagerðarmaðurinn Hrafnhildur Gunnarsdóttir, segist hafa orðið vör við slæma aðstöðu kvenna í Afganistan er hún tók þar upp kvikmynd árið 2014. Þar átti hún langt viðtal við konu sem rak kvennaathvörf sem eru að hluta til styrkt af samtökunum UN Women. „Einstæðar konur geta ekki lifað af þarna, meira að segja ekki í Kabúl. Ég hef ekki skipt mér neitt af þessum flóttamannamálum en þetta hreyfði við mér. Þessar konur eru búnar að kasta slæðunni og að það eigi að senda þær aftur til Afganistans er að mínu mati algjört brjálæði,“ segir Hrafnhildur.

Eiga heima undir verndarvæng Íslands

Hún bætir við að mæðgurnar hafi flúið til Írans á sínum tíma. Eftir það hafi eiginmaður og sonur úr fjölskyldunni farið aftur til Kabúl þar sem þeir hurfu. Af eigin rammleik hafi þær komist til Svíþjóðar.

„Það er ákveðin seigla í þeim sem ég dáist að. Mín persónulega skoðun er sú að ef einhver á heima undir verndarvæng Íslands eru það konur sem þessar,“ segir Hrafnhildur. Hún ætlar að fylgja máli kvennanna eftir sem kvikmyndagerðarmaður og taka við þær viðtöl.

Vefsíða undirskriftasöfnunarinnar

Hópurinn vill að mæðgunar fái hæli á Íslandi.
Hópurinn vill að mæðgunar fái hæli á Íslandi. mbl/ Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert