Kalla eftir stöðugleikasáttmála

mbl.is/Helgi Bjarnason

Félag kjúklingabænda og Svínaræktarfélag Íslands hafa farið þess á leit við utanríkismálanefnd að fresta tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur og að tollasamningur verði ræddur á nýjum samráðsvettvangi um landbúnaðarmál.

Þetta kemur fram í erindi félaganna til utanríkismálanefndar.

Þar segir m.a. að samráðsvettvangurinn sé hugsaður til að ræða þær búgreinar sem eiga aðild að búvörusamningum og eðlilegt sé að útvíkka hann til landbúnaðarins alls. Þannig gefist ráðrúm til að fara betur yfir rekstrarumhverfi þeirra landbúnaðargreina sem njóta ekki opinberra framlaga heldur reiða sig á tollvernd.

„Eins og nefndarmönnum er kunnugt voru engar greiningar gerðar um áhrif tollasamningsins á íslenskan landbúnað þegar hann var undirritaður við Evrópusambandið. Fjölmargar athugasemdir hafa verið gerðar af hálfu fulltrúa bænda og Samtaka iðnaðarins um efni tollasamningsins. Eftir að samningurinn var undirritaður var settur á fót starfshópur til að fara yfir þær athugsemdir sem fram höfðu komið um efni samningsins, en ekkert samráð var haft um efni hans áður en samningurinn var undirritaður. Sá starfshópur setti fram ákveðnar tillögur til að lágmarka skaða af tollasamningnum fyrir íslenskan landbúnað. Það hefur þó alltaf verið meginkrafa kjúklinga- og svínaræktar að tollasamningurinn verði ekki samþykktur.“

Félögin kalla eftir því að stjórnvöld og Alþingi geri stöðugleikasáttmála við þær greinar landbúnaðarins sem reiða sig á tollvernd, þ.e. að fest verði ákveðið magn afurða sem flutt væri inn til landsins til langs tíma.

„Á móti kæmi að innlendur landbúnaður héldi áfram að bæta aðbúnað á búum í samræmi við auknar kröfur og yrði áfram laus við sýklalyf og önnur óæskileg efni sem leyfileg eru í þeim löndum sem innflutta kjötið kemur frá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert