Plöntur nema land á jökulskerjum

Þúsundablaðarós er burknategund sem fannst óvænt bæði í Bræðraskeri og …
Þúsundablaðarós er burknategund sem fannst óvænt bæði í Bræðraskeri og Káraskeri. Tegundin vex annars aðeins á Norðurlandi. ljósmynd/Starri Heiðmarsson

Fleiri plöntutegundir geta nú vaxið á jökulskerjum í Breiðamerkurjökli og Vatnajökli en fyrir 35 árum og gróðurmörk hafa breyst vegna hlýnandi loftslags. Rannsóknarferð Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands leiddi í ljós að tegundunum hefur fjölgað um 13% frá árinu 1979.

Gömul jökulsker bjóða upp á einstakar aðstæður til að meta áhrif loftslagsbreytinga því þar er um að ræða ósnortið land sem aldrei hefur verið nytjað af mönnum, að því er segir í frétt á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Víðast hvar á landinu geri landnýtingarsaga vísindamönnum erfitt fyrir að túlka áhrif nýlegra loftaslagsbreytinga á gróðurfar.

Hópurinn kannaði nokkur slík jöklasker, þar á meðal Kárasker, Bræðrasker og Maríusker sem ganga um 7-15 kílómetra inn í Breiðamerkurjökul. Einnig var farið í Systrasker og nýtt jökulsker sem kom upp í nágrenni þess nú í sumar sem kallað er Grannasker. Þá var farið í jökulskerið Máfabyggðir sem er í Vatnajökli ofan Breiðamerkurjökuls.

Reglulega hefur verið fylgst með breytingum á gróðurfari Káraskers og Bræðraskers frá árinu 1965.

Skerin eru sögð mynda aldursseríu; Máfabyggðir hafa staðið upp úr jökli frá lokum síðasta kuldaskeiðs ísaldar, Kárasker kom upp úr jöklinum 1935, Bræðrasker árið 1961, Maríusker haustið 2000, Systrasker í kringum 2010 og Grannasker sumarið 2016.

Tveir leiðangursmenn á leið í Máfabyggðir á Vatnajökli.
Tveir leiðangursmenn á leið í Máfabyggðir á Vatnajökli. ljósmynd/Starri Heiðmarsson

Líkt og að kanna landnám í Surtsey

Megintilgangur ferðarinnar, sem var farin dagana 8.-11. ágúst, var að greina háplöntur, mosa og fléttur en auk þess gerði hópurinn ýmsar jarðvegsmælingar. Rannsóknunum er líkt við rannsóknir á landnámi tegunda í Surtsey. Fjöldi háplantnategunda í eldri skerjunum reyndist þannig svipaður.

Í Surtsey fannst nú í sumar 61 tegund háplantna á lífi, 53 árum eftir að eyjan myndaðist. Á Bræðraskeri, sem er líkast Surtsey í aldri eða 55 ára, fundust 60 tegundir háplantna. Á Káraskeri sem er 81 árs fannst 71 tegund, á Maríuskeri sem er 16 ára voru 37 tegundir, á Systraskeri sem er sex ára fundust 13 tegundir en engar á Grannaskeri. Hraði landnáms á þessum jökulskerjum er því mjög sambærilegur við Surtsey, þrátt fyrir að gróðursamfélög séu mjög ólík.

Hópur grasafræðinga heimsótti Máfabyggðir árið 1979 og því er gróðurfar þeirra vel þekkt frá þeim tíma. Þá fundust þar 46 tegundir háplantna. Eftir tvær heimsóknir þangað í ágúst 2012 og 2016 er ljóst að í dag vaxa þar 52 tegundir háplantna.

„Tegundafjöldi hefur sem sagt aukist um 13% og það er því ljóst að gróðurmörk eru að breytast með hlýnandi loftslagi og fleiri plöntutegundir geta núna vaxið á jökulskerjum uppi á Vatnajökli en fyrir 35 árum,“ segir á vef Náttúrufræðistofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert