Alvarlegt mál kom upp í vél Icelandair

Mikil veikindi hafa komið upp hjá starfsfólki Icelandair.
Mikil veikindi hafa komið upp hjá starfsfólki Icelandair. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Þó nokkur mál hafa komið á borð rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna veikinda starfsfólks um borð í flugvélum Icelandair, þar af eitt alvarlegt. Málin eru nú í skoðun hjá nefndinni að sögn Þorkels Ágústssonar, rannsóknarstjóra hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Eins og RÚV greindi frá í gær hafa veikindi starfsfólks aukist svo mikið að fyrirtækið hefur gripið til umfangsmikilla aðgerða. Þar er vísað í bréf sem Icelandair sendi áhöfnum félagsins vegna málsins í síðustu viku þar sem fram kemur að fyrirtækið líti þetta alvarlegum augum.

Frétt mbl.is: Mikil veikindi hjá starfsfólki Icelandair

Þorkell segir rannsóknarnefndina hafa til rannsóknar mál sem snúi að því þegar áhafnarmeðlimir finni fyrir einhvers konar óþægindum. Aðallega sé þó eitt atvik í skoðun, sem átti sér stað í febrúar, en þá var um alvarlegri einkenni en óþægindi að ræða. Þorkell segist hins vegar ekki geta útskýrt atvikið nánar.

„Þetta eru misjafnlega alvarleg atvik en við erum að skoða það sem kalla má alvarlegt,“ segir hann og bætir við að einnig sé í skoðun hvort atvikin eigi eitthvað sameiginlegt. „Það er allur gangur á því en við erum líka að skoða hvort það sé einhver samnefnari. En þetta er mjög misjafnt,“ segir Þorkell.

Kemur helst upp hjá flugfreyjum

Aðspurður segist Þorkell ekki hafa tölu á því hversu mörg atvik hafi komið upp í heildina, en þau sem komið hafi upp hafi verið misjafnlega alvarleg. Hann segir engar tilkynningar hafa borist frá farþegum, en flest tilvikin hafi verið hjá flugfreyjum. Eitt atvik hafi hins vegar komið upp í ágúst þar sem flugmaður fann fyrir óþægindum.

Spurður hvort galli í vélunum valdi veikindunum segir Þorkell að það sé í skoðun. „Það er eitt af því sem við erum að skoða í samvinnu við kollega okkar í Bandaríkjunum, bæði hjá Boeing og rannsóknarnefnd samgönguslysa í Bandaríkjunum.“

Óvenjulegt rannsóknarmál

Í frétt RÚV frá því í gær kom fram að tilkynningar kæmu frekar frá yngra fólki með lágan starfsaldur en þeim sem eru eldri og reyndari. Þá kom fram að í kjölfar aukins fjölda hefði hvert tilfelli verið skoðað og greint í samstarfi við trúnaðarlækni. At­vik­in væru mis­jöfn og ættu fátt sam­eig­in­legt. Þau hefðu dreifst á flest­ar vél­ar í flot­an­um, bæði Boeing 757 og 767.

„Við erum að reyna að safna upplýsingum núna en þetta er frekar óvenjulegt rannsóknarmál hjá okkur. Það sem gerir þetta ólíkt hefðbundnum rannsóknarverkefnum er að það er erfitt að ná gögnum og vísbendingarnar eru jafnvel farnar þegar við komum að málinu,“ segir Þorkell og vísar þar í lofttegundir í vélunum. „Við vitum svo sem ekki enn hvort það eru lofttegundir sem valda þessu en við erum með það í skoðun.“

En er þá ekki hægt að setja upp einhvers konar búnað í vélunum til að skoða þessar lofttegundir meðan á flugi stendur? „Jú, það er það sem við erum að vinna að núna,“ segir Þorkell.

Boing 767 þota Icelandair.
Boing 767 þota Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ekkert eftirlit með vinnuumhverfi okkar

Sigríður Ása Harðardóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir það kröfu félagsins að öllu leyti að fyrirtækin sem flugliðar vinni hjá tryggi að aðstæður séu þannig að fólk sé óhult um borð og geti sinnt vinnu sinni. Hún bendir hins vegar á að starfsstéttin sé undanþegin lögum um vinnuvernd.

„Það er ekkert eftirlit með vinnuumhverfi okkar. Þetta hefur verið eitt af stærstu málunum innan þessa stéttar, að það vantar meira eftirlit með vinnusvæði okkar,“ segir hún. „Allt hjá okkur hefur farið í gegnum kjarasamninga en það er kannski ekki eðlilegt að það þurfi að semja sérstaklega um slíka hluti.“

Sigríður segir félagið meðvitað um vandamálið og vita af þeim málum sem hafi komið upp hjá Icelandair. „En við vitum ekkert hverjar ástæðurnar eru og höfum ekkert í höndunum með það.“

Kærðu Boeing vegna veikinda í flugvél

Á síðasta ári kærðu fjórir áhafnarmeðlimir Alaska Airlines, þar af einn Íslendingur sem vinnur hjá félaginu, flugvélarisann Boeing þar sem þeir sögðu lofttegundirnar um borð vera eitraðar. Þrír þeirra misstu meðvitund í flugi frá Boston til San Diego árið 2013 og þurfti að neyðarlenda vélinni til að koma þeim á sjúkrahús. Allir starfsmennirnir fjórir sögðust enn finna fyrir heilsufarsvandamálum tveimur árum eftir atvikið.

Talsmenn Boeing neituðu að tjá sig um málið þegar fjallað var um það á vef The Telegraph í júní í fyrra, en sögðu hins vegar að traustar rannsóknir sýndu fram á það að hættulaust væri að anda að sér lofttegundum í flugvélum fyrirtækisins.

Í kærunni var fyrirtækið sakað um svik og vanrækslu, og að hafa ekki varað við hættum eitraðs lofts í farþegarými. Þá var fyrirtækið sakað um hönnunargalla í vélunum sem kærendurnir sögðu hafa valdið eitruðu lofttegundunum. Lögmenn áhafnarmeðlimanna fjögurra sögðu Boeing hafa vitað af vandanum frá því um 1950 en aldrei hafa brugðist við honum.

Einkenni eru sögð vera allt frá höfuðverk, þreytu og flensu yfir í alvarleg vandamál í öndunarvegi, minnisleysi og veikindi í taugakerfi, sérstaklega ef lífrænt fosfat (e. organophosphate) sem nefnist TCP kemst í loftið í vélinni.

Flestar vélar Boeing eru með búnað sem þjappar lofti frá hreyflunum og notar það til að auka þrýsting í farþegarýminu. En ef kerfið bilar geta olíuagnir komist inn í loftinnblásturinn og eru þær taldar geta valdið veikindunum.

Ekki náðist í Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúa Icelandair, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert