Auður Alfa stefnir á 3.-4. sæti

Auður Alfa Ólafsdóttir
Auður Alfa Ólafsdóttir

Auður Alfa Ólafsdóttir stjórnmálahagfræðingur gefur kost á sér í 3.-4. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi.

Í tilkynningu frá Auði Ölfu segir að hún gefi kost á sér til starfa fyrir Samfylkinguna vegna þess að málefni jafnaðarstefnunnar brenna á henni „en þau ganga út á jöfn tækifæri fyrir alla, velferð, jafnrétti, umhverfisvernd og fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf.

Ég hef sjálf þurft að reyna ýmislegt í gegnum lífið og rekið mig á veikar undirstöður kerfisins. Þá hef ég í gegnum árin kynnst og umgengist fólk úr öllum stigum þjóðfélagsins sem hefur að sama skapi gefið mér innsýn í þau verkefni sem samfélagið þarf að kljást við,“ segir í tilkynningunni. 

„Við eigum að fjárfesta í sterku velferðar- og heilbrigðiskerfi en með því fjárfestum við í heilbrigðari, heilsteyptari og hamingjusamari einstaklingum og þar með í betra og öflugra samfélagi með sterku atvinnulífi.

Þar með eigum við að stuðla að öflugu atvinnulífi sem einkennist af nýsköpun, heilbrigðri samkeppni og heilbrigðu vinnuumhverfi í stað fákeppni, frændhygli og einokun.

Þá vil ég taka þátt í að móta stefnu sem tekur á þeim vandamálum sem ungt fólk (sem og aðrir þjóðfélagshópar) stendur frammi fyrir sem eru m.a. handónýtur leigumarkaður, skortur á störfum og tækifærum við hæfi og gölluðu námslánakerfi. Við höfum öll spilin í hendi okkar til þess að byggja upp heilbrigt og gott velferðarsamfélag. Spurningin er bara hvernig við spilum úr þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert