Endurgreiða námsmönnum vegna ónæðis

Frá framkvæmdunum á Hjónagörðum Félagsstofnunar stúdenta að Eggertsgötu 2 til …
Frá framkvæmdunum á Hjónagörðum Félagsstofnunar stúdenta að Eggertsgötu 2 til 4. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Þeir íbúar sem bjuggu á Hjónagörðum Félagsstofnunar stúdenta að Eggertsgötu 2 og 4 í júní, júlí og ágúst fá niðurfellda eins mánaðar leigu. Þeir sem bjuggu í húsinu hluta af sumri fá niðurfellingu eða endurgreidda leigu í hlutfalli við þann tíma.

Þetta kemur fram í svari Félagsstofnunar stúdenta við fyrirspurn mbl.is en íbúar á Hjónagörðum hafa orðið fyrir miklu ónæði í sumar af völdum viðhaldsframkvæmda sem hófust haustið 2015. Verkið er unnið í áföngum og er gert ráð fyrir að því ljúki haustið 2017.

Frétt mbl.is: Stúdentar óánægðir með framkvæmdir

Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta, segir stöðugt viðhald vera á húsnæði Stúdentagarða eins og nauðsynlegt er, enda byggingarnar misgamlar, sú elsta frá 1934.

Tími var kominn á viðhaldsframkvæmdir að sögn upplýsingafulltrúa FS.
Tími var kominn á viðhaldsframkvæmdir að sögn upplýsingafulltrúa FS. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Íbúðirnar eru teknar í gegn allt árið um kring og unnið í öllum byggingum eins og hægt er eftir þörfum. Reynt er að haga framkvæmdum þannig að húsin séu íbúðarhæf meðan á framkvæmdum stendur því mikill skortur er á húsnæði fyrir stúdenta, sérstaklega nú þegar biðlistar eru í sögulegu hámarki,“ segir hún. 

„Verulegt viðhald var orðið tímabært á Hjónagörðum þó tvívegis hafa þar farið fram stórar framkvæmdir frá því að húsið var tekið í notkun árið 1976, bæði utanhúss og innan. Þegar utanhússframkvæmdirnar hófust í vor kom í ljós að húsið var verr á sig komið en vitað var.“

Auk almennra viðgerða á húsinu er verið að breyta og bæta aðstöðu innanhúss, breikka ganga, útbúa leiksvæði fyrir börn og setustofu fyrir íbúa.

Ekki fordæmi fyrir endurgreiðslu af þessu tagi

Rebekka segir reynt að ráðast í stór viðhaldsverkefni á tímum þar sem ónæðið af völdum þeirra hafi sem minnst áhrif á námið. „[Þau] eru tímasett með tilliti til kennslu og prófatíma svo þau valdi íbúum sem minnstu ónæði. Þá er aðeins hægt að vinna þau skamman hluta árs og þá reynt að gera sem mest,“ segir hún. „Kapp var lagt á að ljúka því sem mestur hávaði fylgir frá því prófum lauk í vor þar til kennsla hæfist af þunga í haust.“

Spurð hvort fordæmi séu fyrir endurgreiðslu á borð við það sem nú er uppi á teningnum segir hún svo ekki vera. „Hingað til hefur ekki verið veittur afsláttur á leigu þegar viðhald stendur yfir, hvort sem um stór eða smá verkefni er að ræða. Undantekning var gerð í þetta sinn þar sem vinna í sumar hefur ekki gengið eins og vonir stóðu til og álag á íbúa verið óeðlilegt miðað við það sem búast má við þegar framkvæmdir eiga sér stað,“ segir hún.

Var það ekki síst vegna slæmrar umgengni verktaka og iðnaðarmanna á svæðinu, hávaða og fl. sem íbúar urðu fyrir miklu ónæði þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir FS um að bætt yrði úr málum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert