Gæslan sækir veikan farþega um borð í Astoria

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út um hádegi í dag til að sækja veikan farþega um borð í farþegaskipið Astoria. Þyrlan kom að skipinu um eittleytið í dag og var það þá statt um 70 sjómílur suðsuðaustur af Vestmannaeyjum.

Svanhildur Sverrisdóttir, starfandi upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir aðgerðina hafa gengið vel þrátt fyrir töluverða undiröldu. „Sigmaðurinn seig niður og bjó um sjúklinginn sem síðan var hífður upp og honum komið undir læknishendur í Reykjavík,“ segir Svanhildur.

Þetta er í annað sinn í sumar sem þyrla Landhelgisgæslunnar fer í sjúkraflug að Astoria, sem á sér langa og mikla sögu. Astoria var byggt í Stokkhólmi og vígt árið 1946 og er því eitt elsta farþegaskipið sem siglir milli landa. 

Svanhildur segir Landhelgisgæsluna þó ekki hafa nákvæmar tölur yfir fjölda útkalla sem hún hefur farið í um borð í skemmtiferðaskip það sem af er þessu ári, en sjúkraflug á sjó telst til björgunaraðgerða samkvæmt stöðlum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.

Þyrluútköllum Landhelgisgæslunnar hafi hins vegar fjölgað verulega það sem af er ári. „Þegar tölur yfir þyrluútköll voru teknar saman í júlí þá var orðin 25% aukning miðað við sama tíma í fyrra.“

Sigmaður seig niður og bjó um sjúklinginn sem var svo …
Sigmaður seig niður og bjó um sjúklinginn sem var svo hífður um borð í þyrluna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert