Hagleikssmiður og pennavinur

Kóngur í ríki sínu. „Röð og regla sparar tíma,“ segir …
Kóngur í ríki sínu. „Röð og regla sparar tíma,“ segir hagleikssmiðurinn Finnbogi Unnar Gunnlaugsson, sem unir sér óvíða betur en á smíðavinnustofu sinn í Grindavík þar sem hver hlutur er á vísum stað. mbl.is/RAX

Finnbogi Unnsteinn Gunnlaugsson fékk óvæntan glaðning með rennibekk sem hann keypti af dánarbúi fyrir rúmum áratug. Með bekknum fylgdu alls konar græjur til að renna viðarpenna. Hann fór að fikta, heillaðist af pennasmíðinni og er enn að renna penna.

„Ég hef stundum á orði að ég hafi keypt bílskúrinn en húsið hafi bara fylgt með,“ segir hagleikssmiðurinn Finnbogi Unnsteinn Gunnlaugsson í Grindavík. Og er ekkert að grínast. Þegar hann og kona hans, Barbara Mary Foley, festu kaup á einbýlishúsi sínu fyrir tuttugu árum fannst honum raunverulega skipta mestu máli hversu bílskúrinn var stór og rúmgóður. Enda hugsaði hann sér gott til glóðarinnar. Í bílskúrnum rættist langþráður draumur um smíðavinnustofu. Þar er hann eins og kóngur í ríki sínu.

Áratug síðar þegar Finnbogi keypti rennibekk af dánarbúi í Hafnarfirði hafði hann hins vegar ekki hugmynd um að honum fylgdu alls konar græjur til að renna viðarpenna. Fylgihlutirnir komu honum skemmtilega á óvart. „Ég keypti í kjölfarið ýmsan útbúnað sem upp á vantaði, sótti mér efnivið og fór að fikta. Smám saman heillaðist ég af pennasmíðinni og hér er ég enn að renna penna,“ segir hann.

Engir tveir pennar eins

Pennarnir eru einstakir í tvenns konar skilningi. Fyrir það fyrsta eru engir tveir eins, og svo eru þeir óneitanlega hinir fegurstu gripir, mikil hagleikssmíð. „Ég nota aðallega við úr íslenskum görðum. Sumt finn ég sjálfur hér og þar, annað fæ ég bara hjá Pétri og Páli. Gullregnið er í algjöru uppáhaldi hjá mér, það er bæði góð lykt af því og gott að vinna úr því. Einnig nota ég silfurreyni og birki því eins og gullregnið eru þetta harðar og þéttar viðartegundir, sem eru mjög mikilvægir eiginleikar í pennagerðinni. Ég er svolítið farinn að spreyta mig á smíði úr hornum af hreindýrum og nautum, en þau eru erfiðari viðfangs en viðurinn í svona fínvinnu,“ segir Finnbogi og bætir við að viðurinn þurfi að vera nánast skrælþurr, helst ekki með rakastigi yfir núlli, áður en hafist er handa við smíðarnar. „Annars er hætta á að hann rifni og detti í sundur,“ útskýrir hann.

Finnbogi kaupir líka við og horn frá Bandaríkjunum, Ástralíu og Brasilíu til að fá fleiri tilbrigði í litum og mynstrum. Búnaðinn, eða sjálft skriffærið, og spennurnar á pennunum, flytur hann inn frá Ástralíu. Þessi „mekkanismi“ getur verið af ýmsum gerðum, t.d. kúlupennar með misstórum fyllingum eða mismunandi skrúfblýantar. Á spennunum má fá ýmiss konar skraut, fígúrur og merki eftir áhugamálum og hugðarefnum fólks, t.d. golfkúlu, hestshaus, konuhatt eða bleiku slaufuna svo fátt eitt sé talið.

Þrifalegt áhugamál

Finnbogi segir töluvert stúss kringum innflutninginn og pennagerðin sem slík sé þó nokkuð kostnaðarsöm. „Þetta er áhugamál sem ég borga með rétt eins og aðrir borga með sínum áhugamálum, til dæmis þeir sem eru í hestamennsku. Mitt áhugamál er bara miklu þrifalegra,“ segir hann brosandi. „Stundum sel ég á handverksmörkuðum og hef alltaf óskaplega gaman af að hitta þar annað handverksfólk. Annars er ég á Facebook, en reyndar frekar lélegur að uppfæra síðuna á sumrin, og svo kemur fólk eða hringir og pantar.“

Í ríki Finnboga er snyrtimennskan í hávegum höfð. „Röð og regla sparar tíma,“ segir hann. Viðarkubbarnir standa í stöflum á gólfinu og viðarilmurinn svífur í loftinu. Hver hlutur er á vísum stað í skúffum, körfum og hillum. Sum verkfærin, smá og stór, eru svo framandleg útlits að þeir sem ekki hafa fengist við smíðar um dagana gætu trúlega ekki unnið sér til lífs að giska á hvað þau heita og til hvers þau eru notuð. Það þarf margs konar tól til að búa til penna og annað, sem Finnbogi dundar sér við eins og hann segir.

„Ég byrja á að saga viðinn niður og þerra, síðan saga ég hann niður í enn minni einingar og þannig koll af kolli þar til efnið er komið í rétta stærð fyrir penna. Þegar viðurinn er orðinn nógu þurr, sem stundum getur tekið marga mánuði, bora ég í hann og set túbur inn í,“ segir Finnbogi um fyrstu vinnubrögðin. Síðan gengur hann úr skugga um að stykkin passi þegar pennanum er smellt saman og er þá kominn tími til að renna. Að því búnu eru pennarnir hertir með lími og öðru til að fá gljáandi áferð.

Skrifar innkaupalista

Aðeins lítill hluti af viðnum, kannski 10% af kubb, verður að penna þegar búið er að skera allt burt. Afgangana nýtir Finnbogi til að smíða sköft á osta- og smjörhnífa og sitthvað smálegt. Rennibekkinn notar hann einnig til að renna lampa, litar skálar og fleira. Ekki er öll sagan sögð af framkvæmdagleðinni því hann er í auknum mæli farinn að ganga fjörur og safna rekavið, sem hann þurrkar og sagar og býr til framreiðslubretti, kertastjaka fyrir sprittkerti eða bara hvaðeina sem honum dettur í hug.

Þessi dægrin er hann þó mest að smíða úti við. Sumarið og góða veðrið hefur hann notað til að smíða verkfærahús við sumarbústaðinn sinn, sem hann reisti sjálfur fyrir allmörgum árum, skipta um þak á húsinu sínu í Grindavík, rækta garðinn sinn og dytta að hér og þar. Hann finnur sér alltaf eitthvað til.

„Mér er sagt að ég megi alveg slappa meira af. En ég er við góða heilsu og hef gaman af þessu öllu saman.

Spurður hvort sjálfur noti hann mikið penna, kveðst hann raunar skrifa sáralítið, helst innkaupalista fyrir smíðaáhöld. Og þeir geta verið býsna langir.

Einstakir pennar. Finnbogi notar mest harðar og þéttar viðartegundir, t.d. …
Einstakir pennar. Finnbogi notar mest harðar og þéttar viðartegundir, t.d. gullregn, silfurreyni og birki í pennana. mbl.is/RAX
„Þetta er áhugamál sem ég borga með rétt eins og …
„Þetta er áhugamál sem ég borga með rétt eins og aðrir borga með sín- um áhugamálum, til dæmis þeir sem eru í hestamennsku. Mitt áhugamál er bara miklu þrifalegra.“ mbl.is/RAX
Penni frá Finnboga.
Penni frá Finnboga. mbl.is/RAX
Penni frá Finnboga.
Penni frá Finnboga.
Penni frá Finnboga.
Penni frá Finnboga.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert