Hljóp samfleytt í 41 klukkustund

Feðginin uppi á fjallinu Vercor. Í baksýn er Mont Blanc.
Feðginin uppi á fjallinu Vercor. Í baksýn er Mont Blanc. Ljósmynd/Aðend

Feðginin Ágúst Kvaran, prófessor við Háskóla Íslands, og Melkorka Árný Kvaran, íþrótta- og matvælafræðingur, hafa lokið við heljarinnar vegahlaup í Grenoble í frönsku ölpunum í þágu átaksins Út með´a.

Ágúst hljóp 170 kílómetra upp og niður fjögur fjöll en Melkorka Árný hljóp 40 kílómetra og eitt fjall. Þau voru ræst samtímis klukkan 7 að morgni föstudags á 64 ára afmælisdegi Ágústs.

Frétt mbl.is: Feðgin hlaupa á frönsk fjöll

„Ógleymanleg aðferð“

 „Þetta var stórkostleg og ógleymanleg aðferð til að halda upp á afmælið sitt,“ segir Ágúst, þegar hann er spurður út í hlaupið.

Hann varð þriðji í sínum aldurshópi (60-70 ára) og Melkorka varð fyrsta í sínum aldurshópi (40-50 ára).

Fjöllin sem hann hljóp upp nefnast Vercor, Oisans, Belladonna og Chartrause en saman hlupu þau upp Vercor á rúmri sjö og hálfri klukkustund.

Feðginin benda á nöfnin sín á lista yfir hlauparana.
Feðginin benda á nöfnin sín á lista yfir hlauparana. Ljósmynd/Aðsend

Með ennisljós í myrkrinu 

Ágúst hélt svo áfram og bætti við hinum þremur fjöllunum. Mikil rigning var á laugardeginum og þurfti hann að notast við ennisljós í kolniðamyrkri um nætur. Merkingar voru til fyrirmyndar, að hans sögn, og engin hætta á að villast.

Hann endaði í 101. sæti af þeim 547 sem voru skráðir í upphafi, sem var framar björtustu vonum. Tímamörk til að ljúka hlaupinu voru 54 klukkustundir en hann hljóp það á um 41 klukkustund, án svefns. Fyrir hlaupið setti hann sér það markmið að hlaupa á innan við 50 tímum.

Ljósmynd/Aðsend

33 prósenta halli 

Feðginin nýttu sér drykkjarstöðvar á leiðinni, þar sem boðið var upp á mat, drykki, orkugel og orkunammi. Brautirnar voru víða mjög brattar og allt að 33% halli þegar mest lét. Sem dæmi var farin um 2.200 metra  samfelld fallhæð niður Oisans á einungis 6 km leið. Á fyrsta hluta Belladonna var 1.000 metra hækkun á einungis 3 km kafla.

Fjölskyldan tók á móti Ágústi og Melkorku undir lok hlaupanna. „Það var ólýsanleg tilfinning að hitta þau að loknu rúmlega 41 klukkustundar hlaupi í stórbrotnu umhverfi Alpafjallanna við erfiðar og mjög fjölbreyttar aðstæður,“ segir Ágúst.

„Þá var einnig dásamleg tilhugsun að þessi þrekraun hafi hugsanlega getað nýst hinu þarfa söfnunarátaki  Út með´a, gegn sjálfsvígum ungs fólks, sem Melkorka var meðal annarra upphafsmaðurinn að.“

Ljósmynd/Aðsend

Strengir í lærvöðvum 

Feðginin eru stödd erlendis þar sem þau jafna sig eftir hlaupið en bæði kvörtuðu þau einungis yfir strengjum í lærvöðvum og nokkrum blöðrum á fótum að því loknu, enda þrautreyndir hlaupagarpar þar á ferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert