Lögreglunámið til Akureyrar

Ráðherra telur aðstæður við HA til þess fallnar að gera …
Ráðherra telur aðstæður við HA til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á lögreglunám. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Mennta- og menningarmálaráðherra hyggst ganga til samninga við Háskólann á Akureyri vegna kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða. Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.

Ríkiskaup auglýstu val á framkvæmdaraðila og héldu utan um matsferlið. Fjórir aðilar skiluðu inn gögnum: Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst og Háskólinn í Reykjavík.

Umsókn Háskólans á Bifröst uppfyllti ekki hæfiskröfu um viðurkenningu til kennslu í sálfræði.

Matsnefnd fór yfir innsend gögn. Innbyrðis skipting stigafjölda þeirra umsækjenda sem uppfylltu lágmarksskilyrði var eftirfarandi:

  • Háskóli Íslands: 128 stig af 135
  • Háskólinn á Akureyri: 116 stig af 135
  • Háskólinn í Reykjavík: 110 stig af 135

„Ráðherra hefur ákveðið að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri um kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða í samræmi við ákvæði 21. gr. laga um háskóla. 

Að mati ráðherra uppfyllti Háskólinn á Akureyri mjög vel þær kröfur sem gerðar eru um gæði náms og aðbúnað til lögreglumenntunar. Þá telur ráðherra aðstæður við HA til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á lögreglunám. Að auki er með þessari ákvörðun skotið styrkari stoðum undir fjölbreytta starfsemi Háskólans á Akureyri,“ segir í tilkynningunni á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert