McDonald's ekki á leið til Íslands

McDonald's er ekki á leið til Íslands, a.m.k. ekki eins …
McDonald's er ekki á leið til Íslands, a.m.k. ekki eins og staðan er núna. AFP

„Staðfest: McDonald's mun snúa aftur til Íslands. Þú last það fyrst hér,“ skrifaði Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni, á Facebook-síðu sína um helgina. Færslan hefur vakið nokkra athygli og var koma McDonald's t.a.m. til umræðu hjá þeim Hjörvari Hafliðasyni og Kjartani Atla Kjartanssyni í útvarpsþætti Brennslunnar í morgun.

Í samtali við mbl.is sagði dr. Gunni að hann hefði heyrt sterkan orðróm þess efnis að staðurinn væri að opna, en hló þó þegar mbl.is sló á þráðinn og sagði þetta ekki staðfestar fregnir. Færsla Dr. Gunna virðist þó á veikum grunni reist því í svari við fyrirspurn mbl.is segir Camille Lechanoine, talsmaður skyndibitakeðjunnar í Evrópu, að McDonald's sé ekki á leið til landsins.

Ronald McDonald fær ekki íslenskan ríkisborgararétt að sinni.
Ronald McDonald fær ekki íslenskan ríkisborgararétt að sinni. Ljósmynd/McDonalds

„Hjá McDonald's skoðum við og greinum ýmsa hagfræði- og viðskiptalega þætti þegar við íhugum að opna útibú á nýju markaðssvæði eða landi. Á þessari stundu eru engin plön um að opna veitingastað á Íslandi,“ segir í svarinu.

Fyrsti McDonald's-staðurinn var opnaður á Íslandi níunda september árið 1993 og var síðasta staðnum lokað hér á landi árið 2009.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert