Sagði engin mál liggja fyrir

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar. mbl.is/Eggert

„Það liggja engin mál fyrir á Alþingi,“ sagði Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, í ræðu sinni eftir hádegi í dag þegar störf Alþingis voru til umræðu. Benti hann á að í aðdraganda haustþings hefði ríkisstjórnin ítrekað rætt um að stjórnarandstaðan myndi þvælast fyrir en svo virtist sem skortur væri á málum til að ræða.

Sagði Helgi að honum væri ekki ljóst hvaða mál ættu að vera til umfjöllunar á morgun og á fimmtudag og að honum væri ekki kunnugt um nein stærri mál sem verði á dagskránni. Sagði hann að ríkisstjórnin væri farin að kalla eftir þingmannamálum svo eitthvað væri á dagskrá þingsins.

Sagði hann að þetta sýndi vel hvers vegna ákveðið hefði verið að boða til kosninga, að samstarf ríkisstjórnarflokkanna væri komið að fótum fram, að stjórnarflokkarnir næðu ekki saman um nein stærri mál til að flytja í þinginu.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, tók í sama streng. Hún benti á að sjö dagar væru eftir af haustþingi og mikilvægt væri að nýta dagana sem best.

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að þrjú frumvörp hefðu verið send úr efnahags- og viðskiptanefnd  til umsagnar á föstudaginn og skilafrestur væri til fimmtudagsins 1. september. Þinginu ætti aftur á móti að slíta daginn eftir. Sagði Valgerður að sér fyndist léttúðin komin út fyrir öll velsæmismörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert