„Þetta lullar bara einhvern veginn áfram“

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég er hissa miðað við umræðuna um að það þyrfti að afgreiða öll þessu stóru mál fyrir kosningar og svo er bara ekkert að gera hjá okkur,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna.

Stefán Pálsson, eiginmaður Steinunnar Þóru, birti innlegg á Facebook-síðu sinni þar sem hann undraðist það hve snemma þingfundir klárast á daginn þrátt fyrir öll þau stóru og brýnu mál sem ríkisstjórnin vildi klára áður en gengið yrði til kosninga.

Gerði ráð fyrir massífri vinnutörn 

Steinunn Þóra segist hafa gert ráð fyrir massífri vinnutörn fram undan vegna allra stóru og brýnu málanna sem klára þurfti fyrir kosningar. „Síðan þingið kom saman er dagskráin búin að vera nokkurn veginn hálftóm. Þetta er skrýtið og fer ekki alveg saman, við sjáum ekki alveg hvað það var sem var svona rosalega brýnt að klára núna,“ segir Steinunn.

Hún segir þingið ekki hafa afgreitt neitt af þeim stóru málum sem lágu fyrir og lítil umræða sé af hálfu þingmeirihluta um þau mál. „Ýmis þingmannamál eru á dagskrá og ég er auðvitað alltaf glöð þegar þingmenn komast að með málin sín en þetta eru ekki nein af þessum stóru brýnu málum. Þetta lullar bara einhvern veginn áfram,“ segir Steinunn.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stóru málin til umsagnar eða inni í nefndum 

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir þau stóru mál sem verið sé að kalla eftir séu flest annaðhvort til umsagnar eða inni í nefndunum til úrvinnslu. „Annars vegar haftamálið sem Bjarni Benediktsson mælti fyrir um sem og séreignarstefnufrumvarpið og frumvarpið um vexti og verðtryggingu voru til fyrstu umræðu en eru núna inni hjá nefndum sem senda þau síðan út til umsagnar og síðan eru þau tekin til umfjöllunar,“ segir Ragnheiður.

Hún segir að nú séu til umræðu þau mál sem ráðherrar lögðu fram á vorþinginu og óskuðu eftir að mæla fyrir um. „Það er mismikil áhersla á að þau mál klárist á þessu þingi en ráðherrunum þótti ástæða til að mæla fyrir þeim á þinginu þannig að þau eru komin fram,“ segir Ragnheiður og bætir við að þegar stóru málin komi síðan úr nefndunum verði umræðan meiri og fleiri þingmenn taki til máls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert