Toppurinn í tónlistinni

Guðmundur Reynir Gunnarsson æfði sig í gær fyrir tónleikana í …
Guðmundur Reynir Gunnarsson æfði sig í gær fyrir tónleikana í Eldborg í Hörpu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breski píanóleikarinn Tom Odell, sem líkt hefur verið við David Bowie, verður með tónleika í Eldborg í Hörpu annað kvöld og hitar Guðmundur Reynir Gunnarsson tónlistarmaður upp fyrir hann.

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir þessu enda er þetta toppurinn á tónlistarferlinum, stærstu tónleikarnir,“ segir Guðmundur Reynir eða Mummi eins og hann er gjarnan kallaður.

Mummi lauk sjöunda stigi í klassískum píanóleik aðeins 15 ára gamall og hefur gefið út eina plötu, Various Times in Johnny's life, sem kom út 2010, en hann hefur samið töluvert mörg lög að undanförnu og er með útgáfur í bígerð. „Það fara að koma fleiri plötur,“ segir hann.

Aðeins nokkrir dagar eru síðan Mummi var beðinn um að hita upp fyrir Bretann. „Ég varð að hafa hraðar hendur við að ákveða hvaða lög ég ætla að taka og hverjir verða með mér en þetta er allt að smella.“

Síðastliðið vor fór Mummi í hringferð og var með um 20 tónleika víðs vegar um landið. Síðan hefur hann spilað á píanó og sungið víða samfara því að semja á fullu. „Það kemst ekkert annað að,“ segir hann.

Einbeittur

Mummi er þekktur knattspyrnumaður, lék í 10 tímabil í meistaraflokki, alla tíð í KR nema í fyrra þegar hann var fyrirliði Víkings í Ólafsvík og átti stóran þátt í að koma liðinu aftur upp í efstu deild, Pepsi-deildina. Það kom því mörgum á óvart þegar hann ákvað að leggja knattspyrnuskóna á hilluna, þó það hafi blundað í honum undir það síðasta hjá KR. „Ég hef áhuga á ýmsum öðrum hlutum og vildi hafa tíma fyrir tónlistina í sumar,“ segir hann. „Ef ég hefði haldið áfram í fótboltanum hefði ég ekki farið í hringferðina og væri ekki að fara að hita upp fyrir Tom Odell. Ég er þannig að ef ég tek mér eitthvað fyrir hendur kemst ekkert annað að. Ég er ekki maður sem getur gert marga hluti í einu. Ég lét á það reyna þegar ég fór að spila í 1. deild, ætlaði þá að gera aðra hluti með, en það gekk ekki upp.“

Fyrir rúmum tveimur árum útskrifaðist Mummi með hæstu einkunn sem gefin hafði verið í hagfræðideild Háskóla Íslands, 9,55 í meðaleinkunn. Hann hefur þó lítið unnið með hagfræðina sem slíka en var í liði Snæfellsbæjar í sjónvarpsþættinum Útsvari í fyrravetur. „Ég var ekkert allt of spenntur fyrir því til að byrja með en tók svo slaginn og það var mjög skemmtilegt,“ segir tónlistarmaðurinn með meiru. „Næst á dagskrá er svo að gefa út þessar plötur og spila meira.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert