Tugir tilvika á síðustu mánuðum

Mikil veikindi hafa komið upp hjá starfsfólki Icelandair.
Mikil veikindi hafa komið upp hjá starfsfólki Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert bendir til þess að veikindi hjá starfsfólki Icelandair hafi eitthvað með flugvélar flugfélagsins að gera. Málið er þó litið alvarlegum augum og vel er fylgst með, en nokkrir tugir tilvika hafa komið upp á undanförnum mánuðum. Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.

Veiktist og gat ekki sinnt stafinu

Eins og fjallað var um á mbl.is í dag hafa þó nokkur mál komið á borð rannsóknarnefndar samgönguslysa vegna veikinda starfs­fólks um borð í flug­vél­um Icelanda­ir, þar af eitt al­var­legt. Málin eru nú í rannsókn hjá nefndinni.

Guðjón segir það atvik sem skoðað hafi verið sem alvarlegt hafa átt sér stað í febrúar þegar einn úr áhöfninni varð óvinnufær um borð. „Það er alvarlegt vegna þess öryggishlutverks sem áhafnarmeðlimir fara með. Þarna veiktist manneskja sem gat ekki sinnt sínu starfi um borð og það er tekið alvarlega,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Alvarlegt mál kom upp í vél Icelandair

RÚV greindi frá því í gær að veik­indi starfs­fólks hafi auk­ist svo mikið að fyr­ir­tækið hafi gripið til um­fangs­mik­illa aðgerða. Yfirmaður á flugrekstrarsviði Icelandair sendi áhöfnum félagsins bréf í síðustu viku þar fram kom að atvikin væru misjöfn og ættu fátt sameiginlegt. Þau hafi dreifst á flestar vélar í flotanum, bæði Boeing 757 og 767.

Ekki í boði að fara heim og jafna sig

„Þetta er eitthvað sem kemur upp og er skoðað og tekið alvarlega,“ segir Guðjón. Hann segir tilvikin sem komið hafa upp vera ótengd því í hvaða vél er unnið og sjúkdómseinkenni ekki alltaf eins. Spurður um fjölda segir Guðjón að nokkrir tugir tilvika hafi komið upp á undanförnum mánuðum.

„Það eru 400 manns að vinna í flugvélunum á hverjum degi og auðvitað er það eðlilegt eins og alls staðar á vinnustöðum að fólk veikist og það mun alltaf gerast. Það sem veldur þessari skoðun okkar núna er þessi fjölgun sem hefur verið,“ segir Guðjón og bætir við að vinnustaðurinn sé ólíkur öðrum vinnustöðum þar sem fólk geti farið heim og jafnað sig ef það veikist. „Þarna er það ekki í boði svo það þarf að fylgjast vel með.“

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. mbl.is/Styrmir Kári

Tilkynningar frekar frá yngra starfsfólki

Í bréfinu til starfsfólksins kom fram að áberandi væri að tilkynningar komi frekar frá yngra fólki með lágan starfsaldur en þeim sem eru eldri og reyndari. Þessi atriði geri það að verkum að líklegra sé að tilvikin séu aðskilin en að um sama orsakavald sé að ræða.

Í einhverjum tilfellum hafi virst vera tengsl á milli einkenna og hreyfingar vélarinnar, hitastigs og misjafnrar hitadreifingar. Önnur tilvik virðist hins vegar alls ótengd flugvélum. Icelandair hafi tekið í notkun sérstakan loftsýnatökubúnað sem hægt er að nota ef fleiri en einn starfsmaður finnur fyrir vanlíðan um borð.

Þá hafi tæknideild félagsins skoðað viðhald vélanna og meðal annars skipt um hreyfla og síur, skoðað loftstokka, þrifið loftræstikerfi og mælt loftgæði á flugi. Þá hafi trúnaðarlæknir Icelandair farið yfir niðurstöður úr læknisskoðunum og blóðprufum hjá starfsfólki sem farið hefur í slíkar rannsóknir eftir flug. Öll sýni hafi komið eðlilega út.

Efnið ekki í notkun í áratug

Eins og fjallað var um í frétt mbl.is fyrr í dag kærðu fjórir úr áhöfn hjá Alaska Airlines, þar af einn Íslendingur sem vinnur hjá félaginu, flugvélarisann Boeing á síðasta ári þar sem þeir sögðu lofttegundirnar um borð vera eitraðar. Þrír þeirra misstu meðvit­und í flugi frá Bost­on til San Diego árið 2013 og þurfti að neyðarlenda vél­inni til að koma þeim á sjúkra­hús. All­ir starfs­menn­irn­ir fjór­ir sögðust enn finna fyr­ir heilsu­far­svanda­mál­um tveim­ur árum eft­ir at­vikið.

Þá kom fram að einkenni væru allt frá höfuðverk, þreytu og flensu yfir í al­var­leg vanda­mál í önd­un­ar­vegi, minn­is­leysi og veik­indi í tauga­kerfi, sér­stak­lega ef líf­rænt fos­fat (e. organoph­osphate) sem nefn­ist TCP kæmist í loftið í vél­inni. Guðjón segir það efni hins vegar ekki hafa verið notað í flugvélum Icelandair í áratug svo útilokað sé að það sé á kreiki í vélum félagsins.

Vonandi tilviljunum háð

Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, sagði í samtali við mbl.is í dag að í skoðun væri hvort galli í vélunum eða eitraðar lofttegundir valdi veikindunum. Slíkt væri í skoðun í samvinnu við Boeing og rannsóknarnefnd samgönguslysa í Bandaríkjunum.

Guðjón segir þó engar skýringar eða samhengi benda til þess að veikindin hafi eitthvað með flugvélarnar að gera. „Þetta eru vonandi bara einhverjar tilviljanir þarna á ferðinni,“ segir hann.

Þá segir Guðjón að engin eiginleg áætlun eða ráðstafanir séu í gangi vegna málsins. „Svona mál eru bara litin alvarlegum augum hvort sem þau gerast ein stök eða eins og í þessu tilviki nokkur saman. Það er hluti af rekstri flugfélags að fylgjast með svona hlutum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert