Vilja banna fólki að fleygja rusli

Átta þingmenn vilja gera breytingu á lögum um náttúruvernd sem gerir það að verkum að óheimilt verður að fleygja rusli eða öðru þess háttar á almannafæri á hálendinu og þjóðvegum landsins, nema í þar til gerð ílát.

Vilja þeir að hægt verði að sekta fyrir brot að þessu tagi og að sektin verði að lágmarki 100 þúsund krónur.

Þetta er í annað skipti sem frumvarpið er lagt fram.

Í greinargerð frumvarpsins segir að rusl sem fleygt er á víðavangi sé augljóst lýti á umhverfinu. „Með því að láta slíkt framferði óáreitt sköðum við þau verðmæti sem felast í íslenskri náttúru. Erlendis er þekkt að greiða þarf háar sektir fyrir að henda rusli á víðavangi,“ segir í greinargerðinnni.  

Þingmennirnir sem standa að baki frumvarpinu eru þau Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, Elín Hirst, Ragn­heiður Rík­h­arðsdótt­ir, Ásmund­ur Friðriks­son, Har­ald­ur Bene­dikts­son, Jón Gunn­ars­son, Val­gerður Gunn­ars­dótt­ir og Vil­hjálm­ur Árna­son.

Standist dagskrá Alþingis verður mælt fyrir frumvarpinu í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert