300 milljónir til vinningshafa í dag

Íslensk getspá greiðir í dag vinninga upp á rúmlega 300 milljónir og er það langstærsta vinningsupphæð á einum degi sem greidd hefur verið til vinningshafa. Í fréttatilkynningu frá Íslenskri getspá kemur fram að það séu þrír heppnir vinningshafar ásamt fjölskyldum þeirra sem fá digrar skattfrjálsar summur inn á reikningana sína í dag.

Fyrst sé þar um að ræða vinningshafann í Víkingalottóinu frá 27. júlí sem var með allar aðaltölurnar réttar og hlaut rúmlega 260 milljónir í vinning. Sá miði var keyptur í N1 við Stórahjalla í Kópavogi.  Í sama útdrætti í Víkingalottóinu var einn vinningsmiði með bónusvinning upp á rúmlega 10,6 milljónir og er sá miði í áskrift.

Síðast en ekki síst sé vinningsmiði í Lottó sem var keyptur í Skýlinu við Friðarhöfn í Vestmannaeyjum með vinningi upp á rétt tæpar 35,8 milljónir króna en sá vinningur var dreginn út þann 23. júlí sl.

„Eigendur vinningsmiðans hafa vitað af vinningnum í dágóðan tíma en voru ekkert að flýta sér að koma með hann til okkar í Laugardalinn. Miðinn var í rassvasa eigandans og ferðaðist með honum víða um land í sumar. Vinningshafarnir, sem eru eldri borgarar með nokkur uppkomin börn, ætla að deila vinningnum með börnum sínum og barnabörnum og greiða niður íbúðalánið.  Þau sögðu að rassvasanum hafi verið klappað óvenju oft í sumar!“ segir í tilkynningunni.  

Starfsfólk Getspár sendir öllum þessum heppnu vinningshöfum heillaóskakveðjur og óskar þeim jafnframt velfarnaðar í framtíðinni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert