Vilja að Alþingi skori á tyrknesk stjórnvöld

Steinunn Þóra Árnadóttir.
Steinunn Þóra Árnadóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjórir stjórnarandstöðuþingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Alþingi skori á tyrknesk stjórnvöld „að standa vörð um lýðræði, frelsi þjóðernisminnihlutahópa, borgaraleg réttindi og frjálsa fjölmiðlun í Tyrklandi.“ Fyrsti flutningsmaður er Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

„Blóðug átök og innanlandsdeilur í Tyrklandi í kjölfar nýlegrar valdaránstilraunar eru umheiminum áhyggjuefni. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og rík ástæða er til að óttast að mannréttindi séu ekki virt. Nýlega hafa tyrknesk stjórnvöld þrengt að lýðræði í landinu með því að svipta þingmenn á tyrkneska þinginu þinghelgi og mikill fjöldi blaðamanna hefur verið hnepptur í fangelsi svo dæmi séu tekin. Efasemdir um að lýðræði og frjáls fjölmiðlun njóti tilhlýðilegrar verndar eru því óhjákvæmilegar,“ segir í greinargerð.

Ýmis óheillaskref hafi verið stigin í Tyrklandi á síðustu missirum. „Má þar nefna áætlanir um að taka á ný upp dauðarefsingu og dómsúrskurð í þá átt að lækka samræðisaldur, sem vakið hefur hörð viðbrögð mannréttinda- og kvennasamtaka í landinu. Í ljósi þess að kjarnorkuvopn úr vopnabúri NATO eru staðsett í Tyrklandi hlýtur hið ótrygga ástand þar að vekja sérstakan ugg.
Fyllsta ástæða er til að hafa áhyggjur af hlutskipti tyrkneskra Kúrda við ríkjandi aðstæður og er vert að beina þeirri áskorun til stjórnvalda í Tyrklandi að virða mannréttindi og mannhelgi allra tyrkneskra borgara.“

Við aðstæður sem þessar sé það skylda annarra ríkja að láta í sér heyra og það eigi Ísland að gera þó að smátt sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert