„Ég er í skýjunum“

Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawat
Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawat mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Gleðin skein úr hverju andliti og ekki síst úr andlitum brúðhjónanna nýbökuðu þegar þau stigu út úr Skálholtskirkju síðdegis í gær. Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawat fengu loks að ganga í hjónaband eftir að hafa barist við yfirvöld í marga mánuði. Það var séra Axel Árnason sem gaf þau saman við fallega athöfn.

Brúðhjónin Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawat
Brúðhjónin Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawat mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fengu loks leyfið

Ragnheiður berst við fjórða stigs lífhimnukrabbamein og birtist við hana ítarlegt viðtal í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um miðjan mánuðinn þar sem hún lýsti baráttunni við krabbann og baráttunni við sýslumann að fá að ganga að eiga indverskan unnasta sinn, Raví.

Eftir að saga þeirra birtist í Morgunblaðinu komst skriður á málið og fleiri fjölmiðlar vöktu máls á óréttlætinu. Deilan snerist um indversk gögn sem fengust ekki viðurkennd hérlendis. Sýslumaður í Reykjavík vildi ekki viðurkenna indversk hjúskapargögn Ravís, þrátt fyrir að þau væru stimpluð og viðurkennd af indverskum stjórnvöldum og indverska sendiráðinu á Íslandi. Þau kærðu úrskurðinn í tvígang en fengu synjun í bæði skiptin. Það var ekki fyrr en málið var gert opinbert í fjölmiðlum að innanríkisráðuneytið greip í taumanna og veitti leyfið.

Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawat .
Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawat . mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Átti bara gallabuxur

Dagurinn var bjartur og fagur og brúðhjónin í Skálholtskirkju brostu hringinn; hún í fallegum blómakjól og hann í gallabuxum. „Ég átti bara ekkert annað,“ segir Raví og þau hlæja, enda skipti klæðnaðurinn þau ekki máli. Mestu máli skipti að nú voru þau hjón og Raví fær að vera á Íslandi við hlið Ragnheiðar.

Veislugestir voru aðeins nokkrir af nánustu ættingjum og vinum. Lagið Dancing Queen með Abba ómaði um kirkjuna þegar þau gengu hönd í hönd inn kirkjugólfið. „Ég vildi bara alltaf hafa þetta lag í brúðkaupinu mínu,“ sagði Ragnheiður sem geislaði af gleði eftir athöfnina. Eftir að hringarnir voru settir upp var spilað lagið How long will I love you. „Það er lagið okkar,“ segir Ragnheiður. Um hálsinn bar hún fallega hálsfesti sem amma hennar heitin og alnafna hafði borið í sínu brúðkaupi. Þá var einungis eftir að spyrja brúðina hvernig henni liði. „Ég er í skýjunum. Svo hamingjusöm. Góður dagur!“

Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawat
Ragnheiður Guðmundsdóttir og Raví Rawat mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert