Einn lést af völdum fentanýls í fyrra

36 dauðsföll voru til skoðunar hjá embætti landlæknis á síðasta …
36 dauðsföll voru til skoðunar hjá embætti landlæknis á síðasta ári þar sem grunur leikur á að einstaklingar hafi látist vegna lyfjaeitrunar. Eitt þeirra var rakið til fetanýls, sem er sterkt lyfseðilsskylt verkjalyf. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lyfjateymi Embættis landlæknis hafði 36 dauðsföll til skoðunar á árinu 2015 þar sem grunur leikur á að einstaklingar hafi látist vegna lyfjaeitrunar. Flestar banvænar lyfjaeitranir eru blandaðar þar sem nokkur lyf koma við sögu, oft ásamt áfengi. Eitt þeirra var rakið til fentanýls, sem er sterkt lyfseðilsskylt verkjalyf.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar hvort andlát ungs manns um helgina tengist neyslu fentanýls en maðurinn lést á heimili sínu. Hann hafði verið á skemmtistað í miðborginni með félaga sínum á laugardag en sá fór í hjartastopp. Lögregla hefur til rannsóknar hvort það tengist neyslu á sömu efnunum.

Frétt mbl.is: Rannsaka andlát ungs manns

Magnús Jóhannsson, læknir hjá embætti landlæknis (EL), segir að starfsmenn embættisins muni funda með lögreglu á næstu dögum þar sem m.a. verður rætt hvernig efla megi samstarfið enn frekar. Magnús segir fentanýl vera talsvert notað en engar tryggar heimildir séu til um misnotkun á lyfinu frekar en um önnur lyf. 

„Hjá embætti landlæknis er fylgst með lyfjanotkun með hjálp gagnagrunns EL og reglulega veittar upplýsingar til einstakra lækna og gerðar athugasemdir við lyfjaávísanir en þetta er gert við öll lyf og þó sérstaklega við ávanabindandi lyf,“ segir Magnús. Hann segir fentanýl vera iett nokkurra lyfja sem kallast ópíóíðar en í grein sem birtist í síðasta tölublaði læknablaðsins kom fram að heildarnotkun ópíóíða hefur meira en tvöfaldast hér á landi á síðustu 20 árum.

Ópíóíðar fundust í 19 af 36 tilfellum dauðsfalla 2015 þar sem grunur leikur á að einstaklingar hafi látist vegna lyfjaeitrunar. Magnús segir að enn sé óvíst hvaða lyf eða fíkniefni komu við sögu varðandi slysið um helgina og ekki sé hægt að segja til um dánarorsök fyrr en að lokinni krufningu eða réttarefnafræðilegum mælingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert