Enginn í Færeyjum ánægður með uppboðið

Jörgen Niclassen.
Jörgen Niclassen. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Engum í Færeyjum finnst þetta uppboð á kvóta hafa tekist vel,“ segir Jörgen Niclasen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og núverandi formaður Fólkaflokksins, sem kom í stutta heimsókn til Íslands á dögunum. „Þetta er búið að vera algjörlega misheppnað. Allt í lagi að hafa gert tilraun en þessi tilraun mistókst algjörlega.

Það sem boðið var upp var aldrei meira en tíu prósent af kvótanum. Þetta voru 10 þúsund tonn af makríl, 5 þúsund tonn af síld, 25 þúsund tonn af kolmunna og 3 þúsund tonn af botnfiski í Barentshafi. Þetta uppboðsdæmi hljómar kannski vel á pappír en í framkvæmd var það gripið glóðvolgt af raunveruleikanum og afhjúpað.

Draumur fólks um að aðrir en stóru fyrirtækin kæmust að reyndist vitleysa, á uppboðinu fengu þeir stóru allt. Þeir sem hafa efni á því að tapa. Draumurinn um að fá rétt verð reyndist rugl. Verðið var of hátt og aðeins þeir risastóru sem vilja halda bátunum sínum gangandi fengu kvóta. Eitt fyrirtæki keypti 65% kvótans. Það fyrirtæki er með augljós tengsl við fjársterka aðila í Hollandi.“

Aðeins þeir ríku komust að

En Færeyjar hljóta að hafa fengið meiri peninga í kassann á þessu uppboði?

„Já, en ef það er markmiðið þá á frekar að skattleggja fyrirtækin. Það er miklu heilbrigðari leið.

Verðið var of hátt, aðeins þeir ríku höfðu efni á því að eyða peningum í kvóta á svona háu verði og ef þetta myndi halda áfram svona þá er nokkuð víst að það verður ekki endurnýjun í flotanum. Fyrirtækin munu ekki nota peninginn í neina framþróun. Þetta uppboð í Barentshafi var alveg misheppnað.“

Ég vissi ekki einu sinni að þið væruð með kvóta í Barentshafi?

„Jú, jú. Við Færeyingar vorum fyrstir á Vesturlöndum til að gera samninga við Sovétríkin í fiskveiðum þótt við höfum alltaf verið á móti kommúnisma. Við erum búnir að vera með kvóta þar óralengi.“

Þannig að þú mælir ekki með uppboðsleiðinni?

„Ég held að þú getir ekki fundið nokkurn mann í Færeyjum sem finnst það góð hugmynd. Við vorum með sex uppboð á þessu ári. Ef við höldum þessu mikið lengur áfram þá mun færeyskur sjávarútvegur staðna og erlend fyrirtæki taka útveginn yfir.

Rússar prufuðu svona uppboð í eitt ár og hættu því síðan. Þeir prufuðu þetta í Eistlandi en hættu því. Mér skilst að menn séu ánægðir með þessa uppboðsleið á Falklandseyjum, það er eini staðurinn í heiminum þar sem menn eru ánægðir með þetta. En það búa þrjú þúsund manns þar og þeim er alveg sama þó að útlendingar sjái um að veiða fiskinn þeirra. Þeir fá fjóra milljarða króna í vasann fyrir að selja fiskinn frá sér. Við í Færeyjum fáum 60 milljarða króna fyrir útflutninginn á fisknum okkar og ættum ekki að selja það frá okkur,“ segir Jörgen Niclasen.

Frá Færeyjum.
Frá Færeyjum. mbl.is/Ómar Óskarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert