Hjálpar við endurhæfingu í Kabúl

Ítalski sjúkraþjálfarinn Alberto Cairo rekur endurhæfingarstöðina í Kabúl.
Ítalski sjúkraþjálfarinn Alberto Cairo rekur endurhæfingarstöðina í Kabúl. ljósmynd/RKÍ

Rauði krossinn á Íslandi hefur sent Jóhann Thoroddsen, sendifulltrúa sinn, til Kabúl í Afganistan þar sem hann kemur til með að starfa fyrir endurhæfingarstöð Alþjóðaráðs Rauða krossins. Hún er ætluð fórnarlömbum jarðsprengna og stríðsátaka sem hafa misst útlimi.

Í tilkynningu frá RKÍ kemur fram að hann hafi  ásamt utanríkisráðuneytinu stutt við starfsemi endurhæfingarstöðvarinnar frá árinu 2012. Skjólstæðingar Rauða krossins hafi þar fengið gervilimi, sálrænan stuðning og starfsþjálfun til að gera þeim kleift að taka þátt í daglegu lífi á nýjan leik.

Starf stöðvarinnar er leitt af sjúkraþjálfaranum Alberto Cairo en hann hefur varið síðustu 26 árum í Afganistan við mannúðarstörf og endurhæfingu fórnarlamba stríðsátaka. Skjólstæðingar eru hvattir til að snúa aftur í atvinnulífið og fá til þess stuðning og leiðsögn auk þess sem þeir eiga kost á hagstæðum lánum til að greiða götu viðskiptahugmynda.

Byggir ofan á grunn sem var lagður í fyrra

Jóhann, sem er sálfræðingur, fer til Kabúl sem sendifulltrúi í annað sinn en fyrir réttu ári hélt hann námskeið um sálrænan stuðning fyrir starfsfólk og og fyrrum skjólstæðinga endurhæfingarstöðvarinnar. Í þessari sendiför kemur Jóhann til með að byggja ofan á þá grunnvinnu sem var lögð fyrir ári. Bæði skjólstæðingar og starfsfólk fær nauðsynlega leiðsögn og þjálfun í sálfélagslegum stuðningi með sjálfbærara starf að markmiði til framtíðar.

„Rauði krossinn á Íslandi kemur til með að styðja áfram við verkefni endurhæfingarstöðvarinnar í Kabúl sem hefur unnið mikið þrekvirki á undanförnum árum og áratugum í einu stríðshrjáðasta landi heims. Skjólstæðingar stöðvarinnar eru meðal allra berskjölduðustu hópa á átakasvæðum en með umönnun, þjálfun og stuðningi eiga þeir von um að eiga betra líf fyrir augum,“ segir í tilkynningu RKÍ.

Jóhann Thoroddsen (t.v.) ásamt Alberto Cairo í fyrri sendiför sinni …
Jóhann Thoroddsen (t.v.) ásamt Alberto Cairo í fyrri sendiför sinni til Afganistan í fyrra. ljósmynd/RKÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert