Jafnvel kröftugri en Suðurlandsskjálfti

Björgunarstarfsmenn leita í byggingu sem hrundi í jarðskjálftanum í bænum …
Björgunarstarfsmenn leita í byggingu sem hrundi í jarðskjálftanum í bænum Arquata del Tronto á Ítalíu. AFP

Melodia, kammerkór Áskirkju í Reykjavík, var staddur í bænum Fano sem er í Marche-héraðinu á Ítalíu þegar mannskæður jarðskjálfti reið yfir landið í nótt. Bærinn er um 200 kílómetrum frá upptökum skjálftans en fannst engu að síður vel á hótelinu þar sem kórinn dvaldi.

„Ég var ekki á landinu 2008 en fólk hafði orð á því að þetta hefði verið jafnvel kröftugra en Suðurlandsskjálftinn þá. Flest okkar sem voru sofnuð vöknuðu við skjálftann,“ segir Guðmundur Arnlaugsson, meðlimur í kórnum.

Húsið gekk til

Aðspurður segir hann að sumir hafi verið skelkaðir. „Við vorum í nýju húsi og það gekk til með skjálftanum eins og það á að gera. Það mynduðust ekki neinar sprungur eða hrundi úr hillum en við vorum vissulega vör við bylgjuhreyfingu.“

Kammerkórinn syngur í kapellu dómkirkjunnar í Fano.
Kammerkórinn syngur í kapellu dómkirkjunnar í Fano. Ljósmynd/Aðsend

Taka þátt í kórakeppni

Tuttugu manns eru á Ítalíu á vegum Melodia og kom kórinn til landsins á sunnudagskvöld. Hópurinn var á leið frá Fano, þar sem hann söng í dómkirkju bæjarins, á leið í kórakeppni sem fer fram í Arezzo í Toscana-héraði þegar blaðamaður ræddi við Guðmund.

Engin vegsummerki

Hann segir að engin vegsummerki um jarðskjálftann hafi verið í Fano og telur að enginn hafi meiðst í bænum. „Miðað við það sem ég hef lesið mér til þá er þetta meira bundið við syðri héruð. Ég hef heyrt að fólk í Róm hafi fundið fyrir þessu en þú þarft að fara upp í fjöllin á Mið-Ítalíu til að finna eyðileggingu vegna skjálftans,“ segir hann.

Nær upptökum skjálftans

Arezzo er nær upptökum skjálftans en Fano en að sögn Guðmundar er ekki talið að nein stórslys hafi orðið þar. Kórinn hefur fengið upplýsingar um að keppnin haldi áfram eins og gert var ráð fyrir en keppnin stendur yfir frá fimmtudegi til laugardags. Hópurinn er væntanlegur heim til Íslands aðfaranótt þriðjudags í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert