Ákvörðun ráðherra kom á óvart

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Ljósmynd/Håkon Broder Lund

„Þetta kom okkur mjög á óvart,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, um ákvörðun Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningamálaráðherra, um að flytja lögreglunám til Háskólans á Akureyri þvert á niðurstöðu matsnefndar sem mat Háskóla Íslands hæfastan.

Frétt mbl.is: Hefðu viljað sjá námið líka í HÍ

Þeir skól­ar sem sóttu um að fá að kenna námið og sendu inn gögn voru Há­skóli Íslands, Há­skól­inn á Ak­ur­eyri, Há­skól­inn á Bif­röst og Há­skól­inn í Reykja­vík. Um­sókn Há­skól­ans á Bif­röst upp­fyllti ekki hæfis­kröfu um viður­kenn­ingu til kennslu í sál­fræði. Skipt­ing stiga­fjölda eft­ir að mats­nefnd hafði farið yfir gögn­in var á þá leið að Há­skóli Íslands fékk flest stig, eða 128 af 135, Há­skól­inn á Ak­ur­eyri kom þar á eft­ir með 116 stig og þar á eft­ir kom Há­skól­inn í Reykja­vík með 110 stig.

„Við töldum að það yrði líklega farið eftir áliti matsnefndarinnar og unnum eftir því sem lagt var upp þar. Við töldum að fagleg sjónarmið myndu ráða en svo koma þessi byggðarsjónarmið inn og ráðherra ákvað að gera þetta svona,“ segir Jón Atli og bætir við að mikil vinna hafi farið í útboðið.

Ekki um fjarnám að ræða samkvæmt gögnunum

Snorri Magnús­son, formaður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann hefði ekki heyrt hvers vegna ákveðið var að ganga frek­ar til samn­inga við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri en Há­skóla Íslands, en sagðist gruna að það vegi þungt hversu vel skól­inn er í stakk bú­inn til að sinna nem­end­um í fjar­námi.

Spurður um þetta segir Jón Atli að í lýsingunni sem skólarnir áttu að fylgja í útboðinu hafi komið fram að námið yrði staðnám, og því hafi hann ekki talið að um fjarnám yrði að ræða. „Fram kom að mælanleg markmið og tilgangur verkefnisins væru að allt að áttatíu nemendur gætu stundað tveggja ára staðnám í lögreglufræðum og við fórum eftir því. Miðað við það átti þetta ekki að vera fjarnám,“ segir hann og bætir við að Háskóli Íslands hafi auk þess boðið fram verklega aðstöðu hjá Keili í Reykjanesbæ sem er nú þegar í notkun hjá lögreglunni.  

„Þegar við tökum svona verkefni að okkur viljum við vanda okkur og gera þetta eins vel og við getum en þetta er niðurstaðan og við óskum Háskólanum á Akureyri til hamingju með að fá námið og vonum að það gangi vel.“

Lögreglunám verður fært upp á háskólastig.
Lögreglunám verður fært upp á háskólastig. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Samstarf á milli skólanna ekki verið rætt

Þá sagði Snorri einnig í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann hefði viljað sjá námið einnig kennt við Háskóla Íslands, og því á báðum stöðum. En hefur slíkt verið rætt? „Nei, slíkt samstarf hefur ekki verið rætt. Það þarf að þróa námskeiðin og hjá okkur var þetta til að mynda skipulagt sem námskeið í lagadeild með þverfræðilegum tengingum inn í sálfræði, félagsráðgjöf, íþróttafræði og fleiri fög. Skólarnir unnu þetta allir sjálfstætt en það hefði þurft að koma fram í forsendum fyrir fram ef þetta hefði átt að vera unnið í samstarfi.“

Jón Atli segir að ágætt hefði verið að vita fyrir fram að byggðarsjónarmið myndu ráða við val á þeim skóla sem taka á við náminu, þar sem ferlið hefði eflaust verið öðruvísi. „Þetta er mjög erfitt verkefni þar sem þetta hefur dregist mikið. Það á að gera samning 1. september og fá inn nemendur sem verður erfitt fyrir hvern þann sem tekur þetta að sér. Það hefði verið eðlilegt að vinna þetta á lengri tíma og vita fyrir fram að byggðarsjónarmið myndu vega svona þungt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert