Lögðu hald á þrjú skotvopn í skútunni

Skútan kom til hafnar á Suðureyri í gærkvöldi.
Skútan kom til hafnar á Suðureyri í gærkvöldi. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Lögreglan á Vestfjörðum lagði hald á þrjú skotvopn um borð í erlendu skútunni á Suðureyri, sem lögregla og sérsveitarmenn voru kallaðir út að sl. nótt.

Skútan kom til hafnar á Suðureyri í gærkvöldi og var lögregla kölluð út eftir að til ágreinings kom milli skipverjanna og einn þeirra hótaði að beita skotvopni.

Lögregla yfirheyrði skipverjana í dag og í tilkynningu, sem lögreglan á Vestfjörðum birti á Facebook-síðu sinni fyrir skemmstu, kemur fram að að skipstjóri skútunnar hafi verið handtekinn en hann var ölvaður við handtöku.

Búið er að sleppa honum lausum, en lögreglustjórinn á Vestfjörðum hefur gert manninum sekt á grundvelli vopnalaga og einnig brota á lögum er snúa að tilkynningarskyldu skipa til vaktstöðvar siglinga.

„Hald var lagt á þrjú skotvopn sem reyndust vera um borð í skútunni. Þau hafa verið afhent tollgæslunni. Við rannsókn málsins kom ekkert fram er bendir til þess að þeim hafi verið beitt eða reynt hafi verið að grípa til þeirra. Hins vegar töldu tilkynnendur sig hafa ástæðu til að ætla að skipstjórinn myndi grípa til þeirra vegna þess ágreinings sem varð um borð í skútunni í nótt,“ segir í tilkynningunni.

Hótaði að beita skotvopni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert