Ráðherra verndi Svartá og Suðurá

Umhverfi Svartár og Suðurár er einstakt á landsvísu að sögn …
Umhverfi Svartár og Suðurár er einstakt á landsvísu að sögn samtakanna.

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu Verndarfélags Svartár og Suðurár gegn virkjun Svartár í Bárðardal í Suður-Þingeyjarsýslu og þau markmið félagsins að Svartá öll, ásamt Suðurá frá Suðurárbotnum og nærumhverfi þeirra að ósi árinnar við Skjálfandafljót, verði friðlýst.

Þetta kemur fram í ályktun NÍ. Skorað er á umhverfisráðherra að hraða vinnu starfshóps sem eig að fjalla um hugmyndir um þjóðgarð á miðhálendinu og friðlýsingu aðliggjandi svæða, og að verndun Svartár og Suðurár verði hluti af þeirri vinnu.

„Umhverfi Svartár og Suðurár er einstakt á landsvísu. Lega svæðisins í jaðri hálendisins, sérstakt samspil lindarvatns, jarðmyndana, gróðurs og dýralífs gerir svæðið einstakt. Hér fer saman í hrjóstrugu umhverfi Ódáðahrauns, gróskumikill hálendisgróður, mikið skordýralíf og fjölskrúðugt fuglalíf, sumar tegundir fugla á válista og ábyrgðartegundir okkar Íslendinga. Í Suðurá lifir bleikja og urriði en í Svartá er einn glæsilegasti urriðastofn landsins. Hér er um tiltölulega ósnortið landssvæði að ræða, aðeins að litlum hluta í byggð, þar sem þróun íslenskrar náttúru hefur náð fram að ganga á eigin forsendum. Svæðið er rómað fyrir náttúrufegurð,“ segir í ályktuninni.

Þá segir, að verkefnisstjórn þriðja áfanga rammaáætlunar leggi til að Skjálfandafljót verði sett í verndarflokk, ekki síst vegna þess að svæðið í heild sé enn tiltölulega ósnortið. Þar undir falli Svartá og Suðurá.

„Náttúruverndarsamtök Íslands telja að fyrirhuguð 9,8 MW virkjun í Svartá muni valda verulegum óafturkræfum breytingum á vistkerfi árinnar og nærumhverfi. Hún mun einnig spilla og skaða gildi nánasta umhverfis á vatnasviði Skjálfandafljóts og rjúfa skarð í náttúru svæðisins í stærra samhengi. Slíkt skarð mun ryðja braut frekari virkjunaráformum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert