Berjast fyrir auknum sýnileika intersex-fólks

Kitty Anderson, formaður Intersex Ísland.
Kitty Anderson, formaður Intersex Ísland. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Það að vera intersex þýðir að líffræðilegu kyneinkennin manns passa ekki alveg inn í þessa stereótýpísku kassa sem við hugsum um konur og karla í. Það getur tengst hvaða kyneinkennum sem er, ytri og innri kynfærum, æxlunarfærum, hormónastarfsemi og litningum, mörgum þáttum í einu eða bara einum,“ segir Kitty Anderson, formaður Intersex Ísland.

Intersex-einstaklingar eru með meðfædd ódæmigerð kyneinkenni. Oft koma þau þó ekki í ljós fyrr en við kynþroska, barneignir eða jafnvel síðar á lífsleiðinni. Í heimi íþróttanna hefur verið deilt um rétt þessara einstaklinga til þess að keppa í íþróttagreinum sem skipt er í flokka eftir kynjum. Kitty segir margar intersex-íþróttakonur í raun aðeins hafa komist að því að þær séu með ódæmigert kyneinkenni á vettvangi íþróttanna.

Frétt mbl.is – Intersex-fólk og heimur íþróttanna

Rasísk og með hinsegin fordóma 

Kitty segir það geta verið afar stuðandi að hlusta á umræður um intersex-fólk sem nær langt líkt og suðurafríska hlaupakonan Ca­ster Semenya. „Maður sér aðra þátttakendur vera að tala um intersex-konur eins og þær séu einhverskonar skrímsli sem eigi engan rétt á því að vera á sama vettvangi og þær,“ segir Kitty og bendir á viðtal við pólska hlaupakonu sem tók einnig þátt í 800 metra hlaupinu á Ólympíuleikunum í Ríó. Í viðtalinu náði hún að vera bæði rasísk og með hinsegin fordóma þegar hún talaði um að sér liði eins og hún hefði unnið silfrið þar sem hún var önnur hvíta konan í mark og sú fyrsta af Evrópubúum.

Caster Semenya fagnar ólympíumeistaratitli sínum í 800 metra hlaupi í …
Caster Semenya fagnar ólympíumeistaratitli sínum í 800 metra hlaupi í Ríó. AFP

Berjast fyrir auknum sýnileika

Spurð hvernig réttindabarátta intersex-fólks standi á Íslandi segir Kitty hana vera afar svipaða og í flestum Evrópulöndum. Malta sé hins vegar það ríki sem komið er hvað lengst með mismunalöggjöf á öllum stigum, á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna, hatursorðræðu, hatursglæpa en einnig er bannað að framkvæma læknisfræðilega óþarfar aðgerðir á intersex-börnum.

Intersex Ísland bert fyrir berst fyrir auknum sýnileika interesex-fólks. „Við erum að berjast fyrir almennri mismunalöggjöf og réttinum til þess að intersex-fólk geti tekið sjálft ákvarðanir um hvað, hvort og hvaða aðgerðir það vill gangast undir. Ef eingöngu er um útlitslega þætti að ræða á þetta að vera ákvörðun hvers og eins einstaklings. Þetta nær hins vegar ekki yfir það ef að um læknisfræðileg vandamál er að ræða,“ segir Kitty.

Fáni intersex fólks var búinn til af sambærilegum sam Intersex …
Fáni intersex fólks var búinn til af sambærilegum sam Intersex samtökum Ástralíu árið 2013. Ljósmynd/Wikipedia

Sagt að aðgerðinar kæmu í veg fyrir samkynhneigð

Að orðinu til er kerfið á Íslandi sett upp þannig að foreldrar intersex-barna taka sjálfir ákvörðun um það hvort barnið gangist undir aðgerð eða ekki. Kitty segir að þrátt fyrir að þetta sé ákvörðun foreldranna hafi umhverfið gríðarleg áhrif á ákvörðunartökuna. Því til stuðnings bendir hún á rannsókn sem birt var í The Journal of Sexual Medicine.

Í rannsókninni var hópi fólks skipt í tvennt en allir áttu að ímynda sér það að þeir ættu intersex-barn. Helmingurinn af hópnum fékk síðan upplýsingar sem voru lagðar fram af læknum um intersex-einstaklinga, hinn helmingurinn horfði á myndbönd samansett af upplýsingum frá sálfræðingum. 66% þeir foreldra sem fengu læknisfræðilegu upplýsingarnar vildu láta sitt ímyndaða barn gangast undir aðgerð en aðeins 23% þeirra foreldra sem horfðu á upplýsingarnar frá sálfræðingunum vildu láta barnið sitt gangast undir aðgerð. Þá bendir hún einnig á aðra rannsókn sem sýndi fram á að í 40,9% tilvika skyldu foreldrar ekki þær upplýsingar sem læknar veittu þeim áður en tekin var ákvörðun um hvort framkvæma ætti aðgerð. „Þessar aðgerðir urðu að einhvers konar læknisfræðilegri hefð um og upp úr 1950. Þá var foreldum oft sagt að svona aðgerðir myndu koma í veg fyrir samkynhneigð,“ segir Kitty.

Caster Semenya hljóp af miklu öryggi í úrslitahlaupinu.
Caster Semenya hljóp af miklu öryggi í úrslitahlaupinu. AFP

Fór í aðgerð þriggja mánaða gömul 

Kitty er sjálf ónæm fyrir hormónum sem heyra undir andrógen-fjölskylduna. Hún varð til sem fósturklasi með XY litninga en til þess að þroskast í átt að karlkyns ytri líkama þarf testósteron flóð að fara yfir fóstrið. Kitty var hins vegar ónæm fyrir testósteróninu og fæddist sem stelpa. „Það var ekki fyrr en ég fór í kviðslitsaðgerð sex vikna gömul að í ljós kom að ég var með innvortis eistu og hvorki leg né eggjastokka,“ segir Kitty.

Þriggja mánaða gömul gekkst Kitty undir aðgerð. „Mömmu var sagt að krabbameinshættan væri svo há að ég myndi líklega ekki lifa af ef þessi aðgerð yrði ekki framkvæmd. Síðar kom í ljós að það var ekki rétt,“ segir Kitty. Hún þarf nú að fara í reglulega hormónagjöf þar sem hún myndar þau ekki sjálf en hormónin skipta gríðarlegu máli varðandi beinheilsu. „Þetta er risastórt vandamál hjá þeim hópi sem deilir minni líffræði. Einn félagsmaður Intersex Ísland er komin með byrjunarstig á beinþynningu um tvítugt,“ segir Kitty og bætir við að meðferðir vegna aðgerðanna geti oft hafa aukaverkanir sem ekki eru þekktar nægilega vel.

Í hollenskri rannsókn sem gefin var út árið 2014 eru teknar saman tölur yfir það hversu margir einstaklingar séu með ódæmisgerð kyneinkenni eftir orsakaskýringu. Í niðurstöðunum kemur fram að ein af hverjum 200 manneskjum sem svara um 0,5% sé með ódæmigerð kyneinkenni. Þá er talað um að eitt af hverjum 1.500-2.000 börnum sæti einhvers konar aðgerðum á kynfærum vegna þess að ytri kynfæri þeirra séu ódæmigerð. „Það erum um 10% intersex-fólks þannig þessi hópur er mun stærri en bara þeir sem sæta aðgerðum,“ segir Kitty að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert