Boðað til flokksþings fyrir kosningar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, mætir til fundarins í kvöld.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, mætir til fundarins í kvöld. mbl.is/Golli

Kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi samþykkti í kvöld tillögu þess efnis að efnt yrði til flokksþings í aðdraganda þingkosninganna í haust. Þetta þýðir að flokksþing mun fara fram, þar sem reglur flokksins kveða á um að halda skuli flokksþing ef meirihluti kjördæmisþinga óskar þess.

RÚV hafði eftir Willum Þór Þórssyni, þingmanni Framsóknarflokks, í tíufréttum að úrslit atkvæðagreiðslunar hefðu verið afgerandi. Þá sagði hann ástæðu þess að menn vildu efna til flokksþings ekki formannskjör heldur málefnin; að skerpa á þeim fyrir kosningar.

Tvö kjördæmisþing höfðu áður ályktað að flokksþing skyldi haldið, þ.e. kjördæmisþingin í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Slík tillaga var hins vegar felld á kjördæmisþingi í Norðausturkjördæmi, kjördæmi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Kjördæmisþing í Reykjavíkurkjördæmunum verður haldið á laugardag.

Frétt mbl.is: Flokksþing ákveðið í kvöld?

Uppfært kl. 22.38:

Um 100 manns sóttu kjördæmisþingið í kvöld, að sögn Hildar Helgu Gísladóttur, formanns kjördæmissamband framsóknarfélaganna í Suðvesturkjördæmi. Hún sagði að meðal þess sem var samþykkt á fundinum var að stillt yrði upp á lista fyrir þingkosningarnar í haust.

Þá var það staðfest að þingmennirnir Willum Þór Þórsson og Eygló Harðardóttir myndu áfram gefa kost á sér.

Hildur sagði í samtali við mbl.is að fundurinn hefði samþykkt með tveimur þriðjuhlutum atkvæða að halda flokksþing fyrir þingkosningarnar. Tillagan var borin upp af Sigurjóni Norberg Kjærnested, sem tók það sérstaklega fram að hún tengdist ekki formannskjöri. Lýsti hann yfir stuðningi við formanninn, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Margir tóku til máls á fundinum. Sagði Hildur að í umræðu um flokksþing hefðu komið fram áhyggjur af því hversu lítill tími væri til stefnu en hún sagði mikinn einhug í fólki.

Sigmundur Davíð hélt ræðu á fundinum en fór áður en atkvæðagreiðsla um flokksþing fór fram. „Það var eitthvað lítið,“ sagði Hildur spurð að því hvort hann hefði komið inn á mögulegt flokksþing í ræðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert