Endamörk í fjölgun nemenda

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn

Fjármögnun háskóla á Íslandi sem byggist á að fjölga nemendum er komin að endamörkum og óumflýjanlegt er að taka afstöðu til breytinga á henni á næstum árum. Þetta sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra á ársfundi Háskóla Íslands í dag. Nauðsynlegt sé að auka fjárframlög til háskólanna.

Ráðherrann lýsti því að háskólanemum hefði fjölgað mjög undanfarin 15-20 ár. Það hefði verið nauðsynlegt til að Ísland væri ekki eftirbátur samanburðarlanda sinna og í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Fyrirkomulag fjármögnunar háskólanna hefði byggt á þessari hugsun og greitt hefði verið sérstaklega með hverjum nemanda sem bættist við. Illugi sagði hins vegar að allir sæju að komið væri að einhvers konar endamörkum í þessari nálgun á fjármögnun háskóla.

Stýring á aðgengi menntapólitísk spurning

Nú þegar hlutfall hvers árgangs sem fer í háskólanám nálgast það að vera sambærilegt við samanburðarlöndin þurfi að huga að breyttum grunni fjármögnunar og hvert meginmarkmið ríkisvaldsins sé þegar kemur að háskólasamfélaginu.

Sagðist Illugi telja að skilningur og samstaða væri að myndast um að taka þyrfti fjármögnunina til gagngerrar endurskoðunar. Allir væru sammála um að fjármagn sem rynni til háskólanna nú væri of lágt. Því væri augljóst að auka þyrfti framlög til kerfisins á næstu árum. Vissulega hefði orðið nokkur aukning undanfarin þrjú ár en hún hefði komið í kjölfar mikils niðurskurðar eftir hrun fjármálakerfisins. Hrósaði ráðherrann starfsfólki háskólans sérstaklega fyrir hvernig það tókst á við áskoranir í kjölfar hrunsins.

Sjálfur sagðist hann sammála sjónarmiðum um að Ísland ætti að miða við Norðurlöndin um framlög á hvern nemanda. Um leið þyrftu Íslendingar hins vegar að velta fyrir sér fyrirkomulagi Norðurlandanna í stýringu á aðgengi að háskólunum. Það væri menntapólitísk spurning sem Illugi sagðist ekki ætla að svara þar og nú.

Óumflýjanlegt væri hins vegar að taka afstöðu til þessara mála fyrir næstu skref í þróun íslenskra háskóla.

Í raun að taka upp námslaun

Þá ræddi menntamálaráðherra stuttlega um frumvarp sitt að breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN). Löngu væri orðið tímabært að leggja fram tillögur um að færa LÍN inn í nútímann en starfsemin væri lítið breytt frá því að námsmenn voru á háskólastigi en nú er.

Sagðist ráðherrann telja að breytingarnar sem frumvarpið boðaði væru til þess fallnar að bæta námsframvindu, auka réttlæti og leiddu til þess að styrkir sem ríkið veitti í gegnum lánskerfið dreifðust á sanngjarnari hátt á milli námsmanna. Í raun væri verið að taka upp námslaunakerfi eins og þekktist á Norðurlöndum ef nemandi stæðist námskröfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert