Féll niður af handriði í FSu

Handriðið sem um ræðir í Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Handriðið sem um ræðir í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Ljósmynd/Aðsend

Sautján ára piltur féll nokkra metra niður af handriði í Fjölbrautaskóla Suðurlands, FSu, í gær þar sem hann sat á svölum á annarri hæð.

Fallið niður á gólfið er að minnsta kosti þrír metrar. Talið er að hann hafi handleggsbrotnað.

Að sögn Þórarins Ingólfssonar, aðstoðarskólameistara FSu, var slysið sem betur fer ekki alvarlegt. Skólayfirvöld fréttu af því eftir að pilturinn var farinn úr skólanum og á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans. Vinur hans hafði ekið honum þangað.

Pilturinn er ekki skráður nemandi í skólanum.

Að sögn sjónarvotts hafði pilturinn verið að gera leikfimisæfingar á handriðinu þegar hann missti jafnvægið og féll. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert