Fólki líður ekkert betur þó það eignist allt sem það langar í

Gerður fyrir nokkrum árum með ömmustelpunum Dórótheu og Ólöfu.
Gerður fyrir nokkrum árum með ömmustelpunum Dórótheu og Ólöfu.

Hún á ekki nema fjögur ár í að verða aldargömul en er ung í anda, fjallhress og fylgist vel með. Hún kann Gunnarshólma utan að og fellur ekki verk úr hendi.

„Það á að heita að ég hafi einu sinni farið hringveginn en aldrei hef ég komið til útlanda, ekki einu sinni til Vestmannaeyja. En ég hef komið til Hríseyjar, það er í eina skiptið sem ég hef farið af landinu á minni ævi. Það var ógleymanlegt, veðrið var svo gott. Það var mín útlandaferð og hana fór ég með eldri borgurum héðan úr sveitinni. Utanlandsferðir voru ekki í boði á mínum yngri árum. Um daginn heyrði ég viðtal við konu þar sem talið var eitt af undrum veraldar að hún hefði ekki farið til útlanda fyrr en hún var 19 ára. Þetta þóttu mikil tíðindi,“ segir Gerður Benediktsdóttir sem býr á Skútustöðum við Mývatn, en hún man tímana tvenna, orðin 96 ára.

Hún er fjallhress og sér um sig sjálf, utan þess að til hennar kemur hreingerningarkona á hálfs mánaðar fresti. Hún segir heilsuhreystina og háan aldur vera í ættinni.

„Mamma varð 104 ára, svo það er langlífi í fjölskyldunni. Hún var klár í kollinum þó að hún hefði lifað heila öld, ef við mundum ekki eitthvað þá spurðum við hana, gömlu konuna.“

Tínir ber og sultar rabarbara

Þrátt fyrir að vera á tíræðisaldri þá situr Gerður ekki aðgerðarlaus, hún prjónar á hverjum degi og hún sultar á haustin.

„Jú, ég tíndi aðeins af berjum í fyrra, og ég sýð alltaf niður rabarbarann. Ég setti líka ævinlega niður kartöflur og sáði gulrótarfræjum, en ég sleppti því þetta vorið, af því fólkið mitt verður svo hrætt um mig ef ég er að vesenast þetta,“ segir hún og hlær.

Vettlingarnir sem Gerður prjónar eru til sölu í prjónagalleríi við Mývatn og eru vinsælir, enda einstaklega fagrir, símunstraðir og lykkjurnar smáar. En hún kvartar ekki undan því. „Þetta kemst upp í vana ef maður kann munstrið. Ég er félagi í Dyngjunni, handverksfélagi hér í sveit og ég stend stundum vaktina í prjónagalleríinu með annarri konu, ég vinn ekkert, sit bara þar og prjóna.“

Blessað sauðataðið var okkar eldiviður

Gerður flutti að Skútustöðum fyrir tæpum sextíu árum þegar Jón, seinni maður hennar bauð henni að koma og búa með sér þar.

„Þá voru aðrir tímar en nú er, fyrstu búskaparárin okkar var ekkert rafmagn og við vorum með kýr í kjallaranum. En ég er fædd og uppalin á Höskuldsstöðum í Reykjadal og þar var baðstofan þiljuð í hólf og gólf en það var moldargólf í eldhúsinu og einnig í göngunum. Ég man vel eftir bernskunni, þá var ekki rennandi vatn í lögnum inn á heimili nema á einstaka bæ, vatnið var sótt út í læk. Á mínum uppvaxtarárum var enginn sími og því síður rafmagn. Blessað sauðataðið var okkar eldiviður,“ segir hún og bætir við að móðir hennar hafi alið hana upp ein ásamt afa hennar og ömmu á Höskuldsstöðum.

„Tveir bræður mömmu bjuggu einnig á bænum og fjórar yngri systur mömmu á ýmsum aldri og allir hjálpuðust að. Amma mín missti heilsuna eftir að hún átti tíunda barnið, en hún hafði samt þrek til að kenna mér að prjóna og hin ýmsu saumaspor.“

Missti fyrri manninn sinn

Áður en Gerður flutti að Skútustöðum bjó hún á Akureyri í sex ár, fyrst með fyrri manni sínum, Jóhannesi, og eftir að hann dó. „Móðir mín fylgdi mér þegar ég flutti að heiman og hún bjó hjá mér til æviloka. Ég veit ekki hvað hefði annars orðið úr mér, ef ég hefði ekki haft hana,“ segir Gerður og á þar við erfiða tíma þegar fyrri maður hennar barðist við krabbamein í rúm tvö ár.

„Við vorum ekki búin að vera gift nema í eitt ár þegar hann veiktist, þetta var mikið áfall, og drengurinn okkar var aðeins tveggja ára þegar Jóhannes lést. Mamma var mín stoð og stytta á allan hátt, bæði andlega og til að annast með mér litla drenginn minn. Hún fór fljótlega að baka flatbrauð sem við hjálpuðumst að við að búa til og við seldum í búðirnar á Akureyri.“

Gerður eignaðist tvö börn með Jóni seinni manni sínum og þau búa nú bæði í nágrenni við hana í Mývatnssveit.

Ég hef trú á Kötu í pólitíkinni

Gerður fylgist vel með pólitík og þjóðmálunum og henni líst illa á ástandið núna. „Mér líst ekki vel á þá sem fara fyrir ríkisstjórninni, en mér finnst Sigurður Ingi hafa staðið sig vel eftir að hann tók við og ég hef trú á henni Kötu, Katrínu Jakobsdóttur, hún er heiðarleg og gáfuð. En það gæti verið erfitt fyrir hana að ráða við gömlu laxana, þeir hafa mikilla peningahagsmuna að gæta. Það er ýmislegt í gangi núna sem ég er dauðhrædd við, til dæmis þetta einkasjúkrahús sem reisa á í Mosfellsbæ. Það virðist ekki hægt að koma í veg fyrir þessa vitleysu.“

Líst ekki á neysluhyggjuna

Þegar Gerður er spurð að því hvernig henni lítist á ungu kynslóðina segir hún gott hversu mikið af góðu ungu fólki sé á Íslandi í dag. „Neysluhyggjan kann samt ekki góðri lukku að stýra. Fólki líður ekkert betur þó það eignist allt sem það langar í. Ég held að snjallsímarnir og tölvurnar skemmi eftirtektina. Mér finnst skrýtið þegar fjölskylda situr saman við matarborð og talar ekki saman af því allir eru með andlitið ofan í símanum sínum.“

Gerður kann býsna margar vísur sem hún hefur lagt á minnið í gegnum ævina. Hún kann utan að allan Gunnarshólma, enda er Jónas Hallgrímsson í miklu uppáhaldi og ekki síður Davíð Stefánsson og Einar Benediktsson, og kann hún mörg af þeirra ljóðum. Veggir heimilis hennar eru margir þaktir bókum og hún ann bóklestri. „Ég spara augun núorðið, en ég get ennþá lesið við gott ljós.“

Listaverk. Vettlingar Gerðar eru undurfagrir og vinsælir.
Listaverk. Vettlingar Gerðar eru undurfagrir og vinsælir.
Gerður hefur ævinlega nýtt gjafir náttúrunnar, hér í berjamó.
Gerður hefur ævinlega nýtt gjafir náttúrunnar, hér í berjamó.
Öskubuska. Gerður prjónaði þessa brúðu sem felur í sér tvær, …
Öskubuska. Gerður prjónaði þessa brúðu sem felur í sér tvær, Öskubusku fyrir og eftir umbreytingu, að- eins þarf að snúa pils- inu og þá breytist hún.
Gerður hefur enn ágæta sjón og prjónar vettlinga til að …
Gerður hefur enn ágæta sjón og prjónar vettlinga til að selja í prjónagalleríinu við Mývatn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert