Íslensk bæjarheiti vestra

Jóel Friðfinnsson hefur skipt íslenskum bæjarnöfnum í Vesturheimi í sex …
Jóel Friðfinnsson hefur skipt íslenskum bæjarnöfnum í Vesturheimi í sex flokka.

Þegar farið er um byggðarlög Íslendinga í Ameríku, ekki síst í Norður-Dakóta og Manitoba, má víða sjá íslensk bæjarheiti. Jóel Friðfinnsson, bóndi með meiru í Geysisbyggð í Manitoba í Kanada, segir að skipta megi nöfnunum í sex flokka og ætlar hann að gera nánari grein fyrir því á Þjóðræknisþingi á Hótel Natura á sunnudag.

Jóel, sem er 31 árs, á ættir að rekja til Íslands í báðar ættir, hefur alla tíð búið í „íslensku“ sveitinni og er góður í íslensku. Hann er með háskólagráðu í faginu frá Manitoba-háskóla, lærði íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands í tvö ár og er virkur í íslenska samfélaginu í Manitoba. Hann kennir byrjendum íslensku í Árborg, hefur verið í stjórn Íslendingafélagsins Esju í Árborg um árabil og er nú formaður, er einn af stofnendum The Icelandic River Heritage Sites Inc. og er ritari nefndarinnar auk þess sem hann er fulltrúi Kanada í Þjóðræknisfélagi Íslendinga. Hann býr á Breiðuvöllum og vinnur í búskap með föður sínum, Brian Friðfinnssyni, á Hamraendum.

Rammíslensk nöfn

Kelduland er dæmi um bæjarheiti vestra. „Það vísar til jarðarlýsingar,“ segir Jóel og bætir við að mýrar hafi verið áberandi á svæðinu. „Fljótshlíð við Íslendingafljót er annað dæmi um þetta,“ heldur hann áfram.

Margir Íslendingar, sem fluttu vestur, nefndu bæ sinn eftir bæjarheiti sínu á Íslandi. „Hjónin sem bjuggu á Engimýri í Öxnadal í Eyjafirði settust að í Riverton og nefndu bæinn sinn Engimýri.“

Í þriðja lagi segir Jóel að sumir hafi nefnt bæinn eftir nafni húsbóndans. Vísar á nöfnin Helgastaðir og Jónsnes í því sambandi.

„Það var líka algengt að menn tóku nafn úr bókmenntum, sérstaklega úr norrænni goðafræði,“ segir Jóel og bendir á Ásgarð, Iðavelli og Bifröst á Nýja Íslandi.

Þess eru jafnframt dæmi að bæjarnöfn hafi verið stytt. Nálægt Riverton er til dæmis bærinn Árskógur, en sá sem gaf bænum nafn var fæddur á Árskógsströnd í Eyjafirði. „Þar hvílir kona sem talin er vera barnabarnabarn Friðriks sjötta Danakonungs,“ segir Jóel.

Í sjötta lagi nefndu menn bæi eftir fyrstu sýn. „Þegar nokkrir Íslendingar komu fyrst að Winnipegvatni sáu þeir reyk svífa yfir trjánum. Þar var tjaldstæði frumbyggja og þeir ákváðu að nefna bæinn Reyki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert