Sýna mynd af heimsókn Danakonungs

Hörður Geirsson, safnvörður Minjasafnsins á Akureyri, rýnir í dönsku hreyfimyndina …
Hörður Geirsson, safnvörður Minjasafnsins á Akureyri, rýnir í dönsku hreyfimyndina á skrifstofu sinni í morgun. ljósmynd/N4

Danska kvikmyndastofnunin hefur fært hreyfimynd af heimsókn Friðriks VIII konungs Danmerkur til Íslands árið 1907 á tölvutækt form, þannig að efnið verði aðgengilegt almenningi. Mynd sem sýnir heimsókn konungsins og fylgdarliðs til Akureyrar, verður sýnd í fyrsta skipti hér á landi á sjónvarpsstöðinni N4 í kvöld.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu, en Minjasafnið á Akureyri hefur aðstoðað dönsku stofnunina við að skrásetja myndefnið.

„Þessi hreyfimynd er afar kærkomin, ég er ekki frá því að þarna sé um að ræða brot úr lengra efni sem tekið var í þessari heimsókn Friðriks VIII  til Íslands í júlí árið 1907. Á myndinni sést vel þegar hann stígur á land á Akureyri og sömuleiðis sést allur mannfjöldinn sem var mættur til að hylla konunginn og hans fylgdarlið. Hérna á safninu eru til góðar ljósmyndir af heimsókninni, en auðvitað er frábært að þessar hreyfimyndir séu nú komnar í dagsljósið,“ er haft eftir Herði Geirssyni, safnverði ljósmyndadeildar Minjasafnsins á Akureyri, í tilkynningunni.

Hreyfimyndin er 4,14 mínútur að lengd og verður sýnd í þættinum Að norðan á N4 í kvöld. María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4, segir afar ánægjulegt að Danska kvikmyndastofnunin hafi gefið N4 leyfi til að sýna myndina.

„Akureyri á afmæli á mánudaginn og um helgina verður haldin Akureyrarvaka, sem er menningarhátíð bæjarins. Þessi mynd er því sýnd á hárréttum tíma og ég er viss um að áhorfendur meta velvilja Dananna og við á N4 erum auðvitað þakklát fyrir traustið sem okkur er sýnt með því að fá að sýna þessa merkilegu mynd. Við getum auðveldlega litið á þessa sýningu sem fallega afmæliskveðju,“ er haft eftir Maríu Björk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert